Langtímasamningur milli Samtaka atvinnulífsins og Eflingar, Starfsgreinasambandsins og Samiðnar hefur verið undirritaður, svokallaður Stöðugleikasamningur. Gildistímisamningsins er afturvirkur um einn mánuð, frá 1. febrúar 2024, og nær til 1. febrúar 2028.
Þar með hefur SA náð að semja við stóran hluta félaga á almennum vinnumarkaði. VR og LÍV eru eftir en þau ákváðu að draga sig úr samstarfi við hina svokölluðu Breiðfylkingu fyrir tveimur vikum.
Meginmarkmið samningsins er að skapa skilyrði fyrir minni verðbólgu, lægri vexti og stöðugleika.
Boðað hefur verið til blaðamannafundar klukkan 18 þar sem aðgerðir stjórnvalda og sveitarfélaga í tengslum við kjarasamninga verða kynntar en það sem helst hefur staðið út af, samkvæmt yfirlýsingum verkalýðshreyfingarinnar í fjölmiðlum, er að sveitarfélög dragi gjaldskrárhækkanir til baka og að skólamáltíðir verði gjaldfrjálsar.
„Þessi kjarasamningur markar tímamót og verður stefnumarkandi fyrir framhaldið. Ný vinnubrögð, góð samskipti og metnaður fyrir sameiginlegum markmiðum hefur skilað því að við erum sammála um svigrúm til launahækkana og hvaða launabreytingar samræmast verðstöðugleika. Launastefna samningsins og forsenduákvæðin bera þess glöggt merki,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA.
„Þessi kjarasamningur ryður brautina, en til að markmiðin náist verða allir aðilar vinnumarkaðarins, fyrirtæki landsins, ríki og sveitarfélög að leggjast á eitt og getur enginn skorast undan ábyrgð,“ segir Sigríður Margrét.
Launabreytingarnar sem samið er um hljóða upp á 3,25% árið 2024 en 3,5% árlega frá 2025 til 2027. Þá mun lágmarkshækkun launa nema 23.750 krónum á ári. Desemberuppbót hækkar um fjögur þúsund krónur á ári og orlofsuppbót um tvö þúsund krónur.
Framleiðniauki kynntur til leiks
Einnig er kveðið á um svokallaðan framleiðniauka og kauptaxtaauka í samningnum.
Sá fyrrnefndi er launaaauki byggður á þróun framleiðni en langtímameðaltal framleiðnivaxtar er 1,5%. Aukist framleiðni umfram það er gert fyrir að launafólk fái hlutfdeild í þeirri verðmætaaukningu en framleiðniauki gæti komið til framkvæmda 1. apríl 2026 og á sama tíma 2027.
Kauptaxtaauki reiknast á lágmarkskauptaxta á árunum 2025-2027 þar sem kauptaxtahópum verður veitt hlutdeild í launaskriði á almennum vinnumarkið. Hækki launavísitalan meira en viðmiðunartaxtinn reiknast taxtaaukinn sem hlutfall umframhækkunar vísitölunnar af framangreindum kauptaxta og hækka allir lágmarkskauptaxtar um það hlutfall.
Komi þó samhliða til greiðslu framleiðniauka og kauptaxtaauka skulu lágmarkskauptaxtar þó aðeins taka þeim auka sem hærri er að hverju sinni.
Verðbólguviðmið í forsenduákvæði
Einn þáttur sem samningsaðilar höfðu deilt um var svokallað forsenduákvæði en breiðfylkingin sleit viðræðum af þeim ástæðum þann 9. febrúar sl. Samkvæmt Stöðugleikasamningnum verður forsendunefnd falið að leggja formlegt mat á samninginn tvisvar á samningstímabilinu. Samið yrði þá um viðbrögð við forsendubresti.
Forsendur endurskoðunar 1. september 2025 eru þær að ársverðbólga sé undir 4,95% í ágúst 2025 og verðlagsforsendur teljast hafa staðið ef að verðbólga á tímabilinu mars-ágúst 2025 sé 4,7% eða lægri miðað við árshraða. Þá þurfi stjórnvöld að hafa staðið við gefin fyrirheit.
Forsendur seinni endurskoðunarinnar, 1. september 2026, eru þær að ársverðbólga sé undir 4,7% í ágúst 2026 og verðlagsforsendur eru taldar hafa staðist ef verðbólga á tímabilinu mars-ágúst 2026 er 4,4% miðað við árshraða.
Áður hafði verkalýðshreyfingin talað fyrir því að forsenduákvæði um lækkun stýrivaxta yrði sett fram í samningnum en ekkert slíkt er að finna í endanlegum samningi.
Sérstakar breytingar starfsstétta
Breytingar verða þá gerðar um ávinnslu orlofs, aukin áhersla verður á starfsmenntun
sem felur meðal annars í sér að heimilt verði að meta hæfni til launa í hæfnilaunakerfum, auk þess sem breytingar verða gerðar sem snúa að öryggi og aðbúnaði. Einnig eru nokkrar sértækar aðgerðir í samningnum sem snúa að ræstingarfólki, iðnaðarmönnum og verkafólki í ferðaþjónustu.
Hvað ræstingarfólk varðar fer það upp um tvo launaflokka, greiddur verður ræstingarauki í formi sérgreiðslu vegna sérstakra vinnuaðstæðna að upphæð 19.500 miðað við fullt starf sem tekur gildi 1. ágúst 2024, og starfshópur verður skipaður um útboðsmál í ræstingu.
Hvað iðnaðarmenn varðar verða færri tímar greiddir með yfirvinnu sem verður útfært í tveimur skrefum á samningstímanum. Þá munu launakjör iðnnema ráðast af ferilhandbók.
Hvað verkafólk í ferðaþjónustu varðar mun það eiga rétt á viðræðum um breytingar á vaktaálagi, greitt verði svokallað jafnaðarvaktaálag utan dagvinnutímabils fram að fullum vinnuskilum sem taki mið að meðalvaktaálagsgreiðslum í fyrirtækinu síðastliðna 12 mánuði auk þess sem heimilt verði að gera samkomulag á vinnustað um aðrar vaktaálagsgreiðslur. Þá færast þrjú starfsheiti upp um einn launaflokk.