Boeing hefur aftur hafið framleiðslu á 737 MAX-þotunum sínum, rúmlega mánuði eftir að sjö vikna verkfalli af hálfu 33 þúsund starfsmanna lauk. Samkvæmt Reuters hófst framleiðsla á ný rétt fyrir helgi.
Að koma framleiðslu þessara flugvéla aftur í gang er mjög mikilvægur liður fyrir hinn skuldsetta flugvélaframleiðanda en Boeing er með rúmlega 4.200 pantanir frá flugfélögum víða um heim.
Boeing hafði áætlað að framleiða 56 MAX-vélar í hverjum mánuði en eftir tvö banaslys, Covid, vandamál í birgðakeðjunni og öryggisáhyggjur urðu þau áform að engu. Félagið hefur einnig verið undir rannsókn af bandarískum flugmálayfirvöldum.
Eftir atvikið með Alaska Airlines í janúar ákvað FAA að takmarka framleiðslu nýrra 737 MAX-flugvéla niður í 38. Sérfræðingar telja nú að Boeing muni aðeins framleiða um 29 MAX-vélar á mánuði árið 2025.