Tæplega 30 milljóna króna tap varð af rekstri Malbikunarstöðvarinnar Höfða, sem er í eigu Reykjavíkurborgar. Til samanburðar hagnaðist félagið um 10 milljónir króna árið 2022 en afkoman hefur verið slök síðustu fjögur ár.

Tekjur Höfða jukust um 1,2% milli ára og námu 1.357 milljónum króna. Til samanburðar nam velta félagsins rúmum 2 milljörðum króna árið 2018. Rekstrargjöld jukust um 6% milli ára og námu 1,4 milljörðum. Rekstrartap (EBIT) var því hjá félaginu upp á 43 milljónir.

Stjórn og framkvæmdastjóri segja í ársreikningi að félagið hafi haldið ágætlega velli þrátt fyrir erfitt árferði og dýra flutninga malbikunarstöðvarinnar. Framleiðslan í fyrra hafi þó verið minni en gert var ráð fyrir.

„Framleiðsla malbiks félagsins var í sögulegu lágmarki en í samræmi við samdrátt á markaði. Félagið hefur komist af án lánsfé hingað til. Undanfarin ár hefur framleiðsla minnkað jafnt og þétt en greiningar og áætlanir gera ráð fyrir aukinni framleiðslu strax árið 2025 og svo áframhaldandi aukningu næsta ár.“

Félagið segir að niðurskurður og samdráttur í framkvæmdum, opinberum og í einkageiranum, sé helsta ástæða samdráttar á malbiksmarkaði. Eins hafi hátt vaxtastig og verðbólga líklega haft áhrif á uppbyggingu og viðhald vega og gatna.

Dýrir og flóknir flutningar

Starfsemi Höfða var á Sævarhöfða 6-10 en unnið hefur verið að flutningum yfir á lóð að Álhellu 34 í Hafnarfirði sem félagið keypti árið 2021. Fyrsta framleiðsla hófst þar í maí 2022. Enn er eftir að rífa nokkur mannvirki á lóðunum að Sævarhöfða auk þess sem flutningi á framkvæmdadeild og skrifstofu Höfða hefur verið frestað tímabundið.

Stefnt er að því að semja að nýju um dagsett lok á viðveru Höfða að Sævarhöfða við umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar.

Eignarhaldið á Höfða hefur verið til umræða í nokkurn tíma og hefur Viðreisn boðað sölu á Höfða í nokkurn tíma.

Tillögu Sjálfstæðisflokksins um að setja félagið í söluferli var hins vegar vísað frá árið 2021 og aftur í desember síðastliðnum. ‏Í stjórnarsáttmála var kveðið á um að borgarmeirihlutinn ætli að skoða sölu á Höfða að lokinni greiningu.

Eignir Malbikunarstöðvarinnar Höfða voru bókfærðar á 1.755 milljónir króna í árslok 2023 og eigið fé var 1.485 milljónir.

Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 31. júlí 2024.