Nvidia segir að fyrirtækið muni hefja framleiðslu á ofurtölvum sem notast við gervigreind og bætir við að framleiðslan muni alfarið fara fram í Bandaríkjunum. Tilkynningin kemur degi eftir að Donald Trump tilkynnti komandi tolla á innflutning hálfleiðara.
Á vef WSJ segir að tæknifyrirtækið sé að vinna með framleiðsluaðilum að því að hanna og byggja verksmiðjur fyrir innlenda framleiðslu.
Þetta verður jafnframt í fyrsta sinn sem slíkar tölvur, sem notaðar eru til að knýja gagnaver sem vinna eingöngu með gervigreind, verða 100% framleiddar í Bandaríkjunum. Nvidia hefur þá keypt gríðarstórt framleiðslurými í Arizona og í Texas.
Búist er við því að fjöldaframleiðsla í báðum verksmiðjum hefjist á næstu 12 til 15 mánuðum. Nvidia segir að það ætli sér að framleiða allt að 500 milljarða dala virði af gervigreindarinnviðum í Bandaríkjunum á næstu fjórum árum.