Framleiðsla og afhendingar bílaframleiðandans Rivian Automotive árið 2024 voru í samræmi við spár fyrirtækisins að sögn CNBC. Rivian tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði framleitt 49.476 bíla á síðasta ári.

Þar af voru 12.727 vöru- og sendibílar framleiddir á fjórða ársfjórðungi 2024. Hátt í 51 þúsund bílar voru afhentir, þar af 14 þúsund á síðustu þremur mánuðum ársins.

Fyrirtækið sagði í október að það hefði leiðrétt spá sína vegna truflana í framleiðsluferli og skorts á íhlutum fyrir R1T-pallbílinn, R1S-jeppann og sendiferðabíla Rivian.

Hlutabréf Rivian hækkuðu þá um meira en 10% í morgun en gengi félagsins hafði engu að síður lækkað um 43% á síðasta ári. Rivian mun þá birta uppgjör sitt fyrir fjórða ársfjórðung síðasta árs þann 20. febrúar nk.