John Bean Technologies Corporation (JBT) tilkynnti í dag að Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) hefði samþykkt beiðni félagsins um framlengingu á gildistíma valfrjáls yfirtökutilboðs í Marel þar sem beðið er eftir samþykki eftirlitsyfirvalda.

Áfram er gert er ráð fyrir að viðskiptin verði frágengin fyrir árslok 2024, að því er segir í tilkynningu Marels til Kauphallarinnar

Gildistími tilboðsins hófst þann 24. júní 2024 og átti að renna út 2. september næstkomandi. Nú mun yfirtökutilboðið gilda þar til, eftir því hvort gerist fyrr:

  • þess dags þegar þrjár vikur eru frá því að skilyrði valfrjálsa tilboðsins er snúa að samþykki eftirlitsyfirvalda hafa verið uppfyllt eða fallið hefur verið frá því, eða
  • kl. 17:00 að íslenskum tíma hinn 11. nóvember 2024

Í tilkynningu Marels er áréttað að hluthafar sem hafa nú þegar tekið afstöðu til tilboðsins þurfi ekki að aðhafast frekar vegna framlengingar á gildistíma þess.

JBT hyggst tilkynna sérstaklega þegar skilyrði um samþykki eftirlitsyfirvalda hefur verið fullnægt.

Valfrjálsa yfirtökutilboð JBT hljóðar upp á 3,60 evrur á hlut í allt útistandandi hlutafé í Marel. Hluthafar Marel munu hafa sveigjanleika í vali á samsetningu endurgjalds: að fá greitt í formi reiðufjár, hlutabréfa, eða blöndu af hlutabréfum og reiðufé.

Val um samsetningu endurgjalds takmarkast af því að vegið meðaltal fulls endurgjalds JBT fyrir allt hlutafé í Marel verði 65% í formi afhentra hlutabréfa í JBT og um 35% í formi reiðufjár.