John Bean Technologies Corporation (JBT) tilkynnti í morgun um að Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) hefði samþykkt beiðni félagsins um framlengingu á gildistíma valfrjáls yfirtökutilboðs í Marel.
Tilkynnt var í lok ágúst um að gildistími yfirtökutilboðsins hefði verið framlengdur til 11. nóvember. Nú hefur JBT framlengt gildistímann í annað sinn og mun tilboðsfresturinn renna út 20. desember næstkomandi.
Ástæða framlengingar tilboðsfrestsins er að beðið er eftir að samþykki eftirlitsyfirvalda, annars vegar frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og hins vegar samkeppniseftirlits Ástralíu. JBT segist gera ráð fyrir að fá grænt ljós frá framkvæmdastjórn ESB í lok nóvember og samþykki frá samkeppniseftirliti Ástralíu um svipað leyti.
JBT gerir ráð fyrir að uppgjör viðskiptanna verði lokið eigi síðar en 3. janúar 2025.