Íslenskir stjórnmálaflokkar fengu samtals úthlutað tæplega 10,6 milljörðum króna úr ríkissjóði, á verðlagi dagsins í dag, á tímabilinu 2010-2025. Sjálfstæðisflokkurinn hefur, þar til í síðustu alþingiskosningum, verið stærsti flokkur landsins á tímabilinu. Flokkurinn hefur fengið hæsta úthlutun úr ríkissjóði á tímabilinu, eða alls rétt rúmlega 2,6 milljarða króna á verðlagi dagsins í dag. Samfylkingin, sem er í dag stærsti flokkurinn á þingi, hefur fengið næstmest í sinn hlut, eða hátt í 1,7 milljarða króna.
Eins og sjá má á meðfylgjandi grafi hækkuðu framlög til stjórnmálaflokka verulega árið 2018. Í lok árs 2017 fóru sex stjórnmálaflokkar af þeim átta sem sátu á þingi á síðasta kjörtímabili fram með tillögu þess efnis að framlag til stjórnmálaflokka yrði hækkað um 127% í fjárlögum fyrir árið 2018. Fulltrúar Pírata og Flokks fólksins kusu að skrifa ekki undir beiðnina. Tillagan var samþykkt af fjárlaganefnd og Alþingi áður en þingið fór í jólafrí.
Heildarframlag til stjórnmálaflokkanna var það sama á árunum 2020-2022, eða 728,2 milljónir króna. Áætlanir gerðu ráð fyrir að framlagið yrði það sama út 2024 en fyrir tæplega þremur árum var það lækkað um 5% eftir að tillaga Bjarna Benediktssonar, þáverandi fjármálaráðherra, þess efnis var samþykkt af meirihluta fjárlaganefndar. Umrædd tillaga var hluti af tillögum um ýmsum aðgerðum til að draga úr þenslu og verðbólgu í hagkerfinu fyrir fjárlaganefnd. Framlagið lækkaði því úr 728,2 milljónum niður í 692,2 milljónir, sem það var árið 2023 og 2024. Í ár nemur heildarframlag til flokkanna svo 531,7 milljónum króna.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.