Þingmenn Framsóknarflokksins vilja minnka umsvif norskra fjárfesta í sjókvíaeldi hér á landi og hafa því lagt fram þingsályktunartillögu sem felur atvinnuvegaráðherra að leggja fram frumvarp til laga sem takmarkar eignarhald erlendra aðila á fyrirtækjum sem hafa rekstrarleyfi til laxeldis í sjó.
Tillagan felur í sér að erlendir fjárfestar geti einungis átt fjórðung í fyrirtækjum sem stunda sjókvíaeldi en í dag er stór hluti þeirra í eigu Norðmanna og tvö þeirra skráð á norskan hlutabréfamarkað, Kaldvík AS og Icelandic Salmon AS.
Það eru allir þingmenn flokksins sem leggja fram tillöguna: Þau Sigurður Ingi Jóhannsson, Ingibjörg Isaksen, Þórarinn Ingi Pétursson, Halla Hrund Logadóttir, Stefán Vagn Stefánsson.
Í tillögunni segir að hún sé lögð fram til að koma í veg fyrir að „arðurinn af mikilvægri auðlind falli í hendur erlendra fjárfesta sem gætu haft aðrar forsendur en langtímahagsmuni íslensks samfélags að leiðarljósi.“
Og enn fremur:
„ Í dag er staðan sú að stór hluti þeirra fyrirtækja sem stunda þessa starfsemi við Íslandsstrendur er í eigu erlendra aðila, einkum Norðmanna. Ljóst er að við lagasetninguna þarf að huga að hagsmunum þessara aðila svo að þeim verði gefið hæfilegt svigrúm til að minnka eignarhlut sinn í þessum fyrirtækjum yfir ákveðið árabil þannig að samrýmist væntanlegum takmörkunum. Að mati flutningsmanna væru fimm ár eðlilegur tími í því samhengi.“