Fyrrverandi formenn Samtaka ferðaþjónustunnar líta yfir farinn veg og meta stöðu ferðaþjónustunnar og framtíðarhorfur í sérblaði, sem Viðskiptablaðið gaf út vegna 25 ára afmælis samtakanna.

.Jón Karl Ólafsson var formaður Samtaka ferðaþjónustunnar frá árinu 2003 til 2008. Hér svarar hann þremur spurningum:

Hvað stóð upp úr á þinni stjórnartíð? 

Í árdaga SAF var helsta verkefnið, að koma ferðaþjónustu á þann stall að verða viðurkennd atvinnugrein. Ferðamenn voru rúmlega 300 þúsund á ári og það var eins og margir litu á þessa starfsgrein, sem hálfgert áhugamál þeirra sem hana stunduðu. Virði ferðaþjónustu voru frekar vanmetin, þar sem hagtölur voru ekki með þeim hætti, sem þær eru í dag.

Við spáðum því, að það mætti reikna með að ferðamenn hér á landi gætu orðið fleiri en 1 milljón og miðað við þróun áratuga á undan þá yrði þetta um árið 2025. Reynt var að fá umræðu um áhrif þessa á uppbyggingu vegakerfis, innviða, aðstöðu við ferðamannastaði og jafnvel í uppbyggingu heilbrigðisþjónustu og fleiri liða. Þessir spádómar þóttu mjög fyndnir og voru almennt ekki teknir mjög alvarlega.

Hver er þín sýn á ferðaþjónustuna í dag? 

Ferðaþjónusta hefur byggst upp mjög hratt og er hún nú óumdeilt ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar. Spáin um 1 milljón reyndist ekki nákvæm, því að þetta gerðist mun hraðar en nokkurn óraði fyrir. Okkur hefur ekki auðnast að tryggja uppbyggingu innviða eins hratt og vöxt og það hefur skapað vandamál. Nægir að nefna uppbyggingu grunnþjónustu eins og salerna, þjónustumiðstöðva og vegakerfis og nú jafnvel hleðsluaðstöðu, sem þarf til að rafbílavæðing bílaleiga verði hröð.

Margt gott er í gangi og stór og öflug innlend og erlend fyrirtæki hafa byggst upp og fjárfest í greininni á liðnum árum. Stór og öflug erlend flugfélög hafa bætt Íslandi inn sem áfangastað og hefur það tryggt enn betri markaðssetningu landsins á stórum mörkuðum. Flugsamgöngur til Íslands eru ótrúlega góðar og skapar það gríðarlega tækifæri í ferðaþjónustu, en einnig í rekstri öflugra fyrirtækja á öllum sviðum viðskipta.

Hvernig sérðu ferðaþjónustuna þróast? 

Eftirspurn eftir ferðum á norðlægar slóðir hefur vaxið bæði til Íslands og annarra landa. Flest bendir til, að þessi eftirspurn muni halda áfram að vaxa, ef að þættir eins og ófriður eða sjúkdómar muni ekki breyta heimsmynd.

Framtíð ferðaþjónustu er björt og við ættum að horfa til þess, að ferðamönnum haldi áfram að fjölga á næstu árum og jafnvel áratugum. Líklega er rétt að taka þá sviðsmynd sterkt inn í áætlanir um uppbyggingu innviða hér á landi til framtíðar.

Fjallað er um málið afmælisblaði Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka í 25 ár.