Árleg ráðstefna Millilandaráðanna verður haldin á morgun 7. nóvember á Hilton Reykjavík Nordica. Millilandaráðin eru samansett af 15 alþjóðlegum viðskiptaráðum og halda þau árlega ráðstefnu í tilefni af alþjóðaviðskiptadeginum.
Ráðstefnan í ár mun leitast við að skyggnast inn í framtíð samgangna og flutninga með framúrskarandi sérfræðingum á þeim sviði.
Stella Stefánsdóttir, forstöðumaður Millilandaráðanna, segir samgöngur og flutninga vera mjög mikilvægar fyrir Íslendinga þar sem þjóðin sé svo háð flutningum, ekki bara þegar kemur að flugsamgöngum og fraktflutningum, heldur líka til og frá vinnu.
„Nú er búið að setja alþjóðleg markmið um kolefnishlutleysi og það hefur svo mikil áhrif á þessu samgöngumáta til og frá landinu. Það skiptir líka fyrirtæki og neytendur rosalega miklu máli að við fylgjumst með þessu og gerum allt sem við getum gert svo þetta komi ekki í bakið á okkur í formi hækkandi vöruverðs.“
Ráðstefnan hefst klukkan 14 og tekur fyrst til máls Anne Lise Kjær, stofnandi Kjaer Globalt Ltd. Hún mun fjalla um hvernig fyrirtækin eigi að staðsetja sig með svokölluðum framtíðaráttavita og fjallar einnig um sjálfbærni og hvernig fyrirtæki geta bætt árangur.
Ralf Herrtwich frá NVIDIA mun þar að auki fjalla um sjálfkeyrandi bíla og aukinn þátt gervigreindar í sjálfakandi bílum. Hann mun einnig koma inn á hvernig sjálfkeyrandi bílar muni standa sig í erfiðum vetrum og hvort þeir henti íslenskum veðuraðstæðum.
Auk annarra erlendra gesta verða þeir Davíð Þorláksson frá Betri samgöngum og Ægir Þorsteinsson, einn af stofnendum HOPP, einnig með erindi á ráðstefnunni.
„Það þarf einfaldlega að mynda strúktúr í kringum samgöngur og hvað varðar til dæmis rafhlaupahjól og sjálfkeyrandi bíla. Við verðum að aðlaga okkur að breyttum aðstæðum og það eru alls konar hlutir sem þarf að skoða,“ segir Stella.