Átta stærstu verkalýðsfélög Frakklands efndu til sólarhringsverkfalls í dag vegna áforma ríkisstjórnarinnar um að hækka lífeyristökualdur í landinu. Verkföll náðu m.a. til samgöngukerfisins, skólastarfs og orkugeirans, að því er kemur fram í frétt Bloomberg.
Verkalýðsfélög skipulögðu mótmæli í stærstu borgum Frakklands. Formaður CGT stéttarfélagsins og leiðtogi franska kommúnistaflokksins settu sér markmið um að yfir ein milljón manns myndu taka þátt í mótmælunum. Væntingar eru um frekari verkfallsaðgerðir á næstu vikum.
Meirihluti ferða með háhraðlestum var aflýst og neðanjarðarlestir voru einungis í umferð á háannatíma og jafnvel þá með helmingi færri ferðum en venjulega. Frönsk flugmálayfirvöld skipuðu flugfélögum um að aflýsa 20% af flugferðum á Orly flugvellinum.
Þá dróst framleiðsla hjá ríkisrekna kjarnorkuframleiðandanum EDF saman um 12% í dag vegna verkfalla.
Ríkisstjórn Frakklands kynnti í byrjun síðustu viku áform um að hækka lífeyristökualdur í landinu úr 62 árum í 64 ár í skrefum fram til ársins 2030. Hækkun lífeyristökualdursins ásamt því að lengja lágmarkstímabil sem greiða þarf iðgjöld mun koma jafnvægi á kerfið árið 2030, að sögn ríkisstjórnarinnar.
Franska lífeyriskerfið, sem er að megninu til gegnumstreymiskerfi, stendur hallari fæti en víða í Evópu. Frakkar eru skemur á vinnumarkaði og lengur á eftirlaunaaldri en almennt gengur og gerist. Það hefur leitt til þess að ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar hafa haldið áfram að aukast og þar með aukið skuldahlutfall hins opinbera í Frakklandi, sem er þegar með því hæsta í Evrópu.
Emmanuel Macron hét því að umbreyta lífeyriskerfinu þegar hann tók við forsetaembættinu árið 2017. Hann frestaði því að ráðast í breytingar á kerfinu í Covid-faraldrinum.
Í umfjöllun Bloomberg segir að hann hafi þó litlu að tapa þar sem hann geti ekki gefið kost á sér í næstu kosningum og hann sé staðráðinn í að tryggja arfleifð sína með breytingum í þágu atvinnulífsins. Þingið tekur frumvarpið fyrir í byrjun febrúar.