Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands (SGS), segist ekki geta orða bundist yfir framgöngu Sólveigar Önnu Jónsdóttur í fjölmiðlum því „frekjan, yfirgangurinn og stjórnsemin nær nýjum hæðum hjá formanni Eflingar“.

Í færslu sem Vilhjálmur birti á Facebook fyrir skemmstu segist hann hafa verið búinn að ákveða eltast ekki frekar ólar við „rangfærslur og aðfinnslur“ Sólveigu Önnu við kjarasamning SA og SGS sem undirritaður var um helgina. Hann segist hins vegar ekki getað látið „yfirgang, frekju og stjórnsemi“ Sólveigar Önnu, sem birst hafi í viðtali við mbl.is í dag, átölulaust.

Vilhjálmur ítrekar að formaður Eflingar tók ákvörðun um að skila samningsumboðinu ekki til Starfsgreinasambandsins „heldur kom skýrt fram hjá þeim að Efling ætlaði semja eitt og sér“. Efling hafi því ekki viljað vera í samfloti með öðrum og hann segist virða þá ákvörðun enda hafi stéttafélög fullan rétt til þess.

„En núna kemur formaður Eflingar fram og segir nánast að Starfsgreinasamband Íslands mátti ekki semja fyrir sína félagsmenn, nema með leyfi Eflingar af því þau studdu mig til formennsku í SGS. Hún gleymir að ég er formaður Starfsgreinasambands Íslands allra 19 aðildarfélaga SGS sem koma vítt og breitt um landið.

Formaður Eflingar veður villu vegar ef hún heldur að ég myndi liggja eins og þægur heimilishundur við lappirnar á henni og ekki gera neitt nema með hennar leyfi. Ég ítreka það að Efling ákvað að skila ekki samningsumboðinu til SGS því þau vildu semja ein og sér.“

Tími fyrir formann Eflingar að axla ábyrgð?

Vilhjálmur segir það einnig liggja fyrir að formenn þeirra aðildarfélaga sem skiluðu umboði til SGS vildu ganga frá þessum skammtímasamningi í ljósi þess að hann sé hagfelldur fyrir félagsmenn. Aðildarfélögin 17 þurfi ekki leyfi hjá formanni Eflingar til að gera kjarasamning „sem skili launahækkunum hratt og vel til okkar félagsmanna“.

„SGS er búið að axla sína ábyrgð með því að gera nýjan kjarasamning og er ekki best fyrir formann Eflingar að einhenta sér í að axla sína ábyrgð og ganga frá nýjum kjarasamningi fyrir félagsmenn Eflingar?

En eitt er víst að ekki mun ég skipta mér af þeirri vinnu eða niðurstöðu og mun klárlega ekki reyna að skemma og afvegaleiða þá vinnu ykkar eins og þið hafið ástundað á liðnum dögum.“