Samninganefnd Eflingar hefur gert samkomulag við Samtök atvinnulífsins um tímabundna frestun yfirstandandi verkfallsaðgerða til miðnættis á sunnudagskvöld „til að liðka fyrir kjarasamningagerð“. Frestunin tekur þegar gildi.
„Eflingarfélagar eiga að mæta til vinnu í samræmis við ráðningarsamning og leiðbeiningar atvinnurekanda frá því nú og fram að lokum frestunarinnar,“ segir í tilkynningu Eflingar.
Yfirstandandi verkföll eru hjá Íslandshótelum, Berjaya Hotels, Reykjavík Edition, Skeljungi, Samskipum og Olíudreifingu.
Samninganefndir Eflingar og SA hafa fundað í dag með Ástráði Haraldssyni, settum ríkissáttasemjara í kjaradeilunni. Viðræðum verður haldið áfram í fyrrmálið.