Ríkis­stjórn Donalds Trump greindi frá því í gærkvöldi að öllum tollum á inn­fluttar vörur frá Kólumbíu yrði frestað í bili eftir að Gusta­vo Petro, for­seti Kólumbíu, samþykkti að heimila lendingu bandarískra her­flug­véla sem flytja brott­vísaða ein­stak­linga.

Til­kynningin kom í veg fyrir mögu­legt við­skipta­stríð milli banda­lags­ríkjanna tveggja, eftir að Kólumbía neitaði tveimur bandarískum her­flug­vélum um lendingar­leyfi í gær en Financial Times greinir frá.

Ríkis­stjórn Trump brást við með því að leggja 25% toll á inn­flutning frá Kólumbíu, sem svaraði í kjölfarið með að hóta gagn­ráðstöfunum.

Á sunnu­dagskvöldið greindi Hvíta húsið frá því að Kólumbía hefði samþykkt öll skil­yrði for­setans. Hins vegar verða vega­bréfsá­ritanir kólumbískra em­bættis­manna áfram tak­markaðar þar til fyrsta flug með brott­vísaða hefur lent í Kólumbíu.

„At­burðir dagsins sýna heiminum að Bandaríkin njóta virðingar á ný,“ sagði í yfir­lýsingu Hvíta hússins í gærkvöldi. „Trump mun halda áfram að vernda full­veldi þjóðar okkar og væntir þess að allar þjóðir virði og samþykki brott­vísun þegna sinna.“

Luis Gil­ber­to Murill­o, utan­ríkis­ráðherra Kólumbíu, sagði í sjón­varpsá­varpi að deilan við Bandaríkin væri leyst. Hann til­kynnti að hann myndi ferðast til Was­hington á næstu dögum til að fylgja eftir sam­komu­laginu og sagðist jafn­framt gera for­seta­flug­vél landsins að­gengi­lega til að auðvelda flutning brott­vísaðra.

„Við munum áfram taka á móti Kólumbíumönnum sem snúa aftur eftir brott­vísun og tryggja þeim mannsæmandi aðstæður,“ sagði Murill­o.

Ágreiningurinn hófst þegar Petro skrifaði færslu á X (áður Twitter) þar sem hann krafðist mann­legrar reisnar fyrir brott­vísaða ein­stak­linga og gagn­rýndi að bandarískar her­flug­vélar óskuðu eftir lendingar­leyfum.

Trump svaraði með því að saka Petro um að tefla öryggi Bandaríkjanna í hættu og boðaði neyðar­tolla, ferða­bann og aftur­köllun vega­bréfsá­ritana.