Ríkisstjórn Donalds Trump greindi frá því í gærkvöldi að öllum tollum á innfluttar vörur frá Kólumbíu yrði frestað í bili eftir að Gustavo Petro, forseti Kólumbíu, samþykkti að heimila lendingu bandarískra herflugvéla sem flytja brottvísaða einstaklinga.
Tilkynningin kom í veg fyrir mögulegt viðskiptastríð milli bandalagsríkjanna tveggja, eftir að Kólumbía neitaði tveimur bandarískum herflugvélum um lendingarleyfi í gær en Financial Times greinir frá.
Ríkisstjórn Trump brást við með því að leggja 25% toll á innflutning frá Kólumbíu, sem svaraði í kjölfarið með að hóta gagnráðstöfunum.
Á sunnudagskvöldið greindi Hvíta húsið frá því að Kólumbía hefði samþykkt öll skilyrði forsetans. Hins vegar verða vegabréfsáritanir kólumbískra embættismanna áfram takmarkaðar þar til fyrsta flug með brottvísaða hefur lent í Kólumbíu.
„Atburðir dagsins sýna heiminum að Bandaríkin njóta virðingar á ný,“ sagði í yfirlýsingu Hvíta hússins í gærkvöldi. „Trump mun halda áfram að vernda fullveldi þjóðar okkar og væntir þess að allar þjóðir virði og samþykki brottvísun þegna sinna.“
Luis Gilberto Murillo, utanríkisráðherra Kólumbíu, sagði í sjónvarpsávarpi að deilan við Bandaríkin væri leyst. Hann tilkynnti að hann myndi ferðast til Washington á næstu dögum til að fylgja eftir samkomulaginu og sagðist jafnframt gera forsetaflugvél landsins aðgengilega til að auðvelda flutning brottvísaðra.
„Við munum áfram taka á móti Kólumbíumönnum sem snúa aftur eftir brottvísun og tryggja þeim mannsæmandi aðstæður,“ sagði Murillo.
Ágreiningurinn hófst þegar Petro skrifaði færslu á X (áður Twitter) þar sem hann krafðist mannlegrar reisnar fyrir brottvísaða einstaklinga og gagnrýndi að bandarískar herflugvélar óskuðu eftir lendingarleyfum.
Trump svaraði með því að saka Petro um að tefla öryggi Bandaríkjanna í hættu og boðaði neyðartolla, ferðabann og afturköllun vegabréfsáritana.