Bandarísk stjórnvöld hafa framlengt frestinn sem Nippon Steel hefur til að falla frá fyrirhuguðum kaupum sínum á United States Steel til 18. júní. Þetta kemur fram á vef WSJ í tengslum við tilkynningu frá US Steel sem barst um helgina.
Joe Biden Bandaríkjaforseti kom í veg fyrir kaupin fyrr í þessum mánuði en hann hafði lýst yfir andstöðu sinni á sölunni og vildi halda bandaríska stálframleiðandanum í eigu innlendra aðila.
Bæði fyrirtækin hafa mótmælt ákvörðun bandarískra yfirvalda og hafa þegar kært ákvörðunina.
„Við hlökkum til að klára þessi viðskipti sem munu tryggja bestu framtíð fyrir bandaríska stáliðnaðinn og sömuleiðis alla hagsmunaaðila okkar,“ segir í tilkynningu frá US Steel.