Drykkjar­vörurisi LVMH-sam­stæðunnar, Moët Hennes­sy, stendur á kross­götum eftir ár af dýr­keyptum yfir­tökum, óheppi­legum ákvörðunum og árásar­gjarnri verðlagningu.

Um 1.200 störf verða felld niður í aðhaldsað­gerðum nýrrar stjórn­enda­stefnu.

Moët Hennes­sy, sem fram­leiðir þekkt vöru­merki á borð við Dom Pé­rignon kampa­vín og Hennes­sy koníak, var árum saman eitt arð­samasta fyrir­tækið innan LVMH-sam­stæðunnar.

Árið 2019 skilaði félagið rúmum milljarði evra til sam­stæðunnar, en í dag hallar veru­lega á reksturinn.

Sam­kvæmt gögnum sem Financial Times hefur undir höndum brenndi félagið sig í gegnum 1,5 milljarða evra af lausafé sínu á síðasta ári og nú blasa við al­var­legar rekstraráskoranir.

Ósjálf­bær vöxtur

Á bak við hnignandi stöðu liggja miklar verðhækkanir og röð dýrra yfir­taka undir stjórn fyrr­verandi for­stjóra, Philippe Schaus, sem lét af störfum í byrjun árs.

Schaus, sem var for­stjóri alveg fram í árs­byrjun 2025, var lögð áhersla á að verja fram­legð félagsins með síhækkandi vöru­verði.

Á sama tíma og hann fór um­fangs­miklar yfir­tökur, oft með veikum fjár­hags­legum for­sendum.

Fjölmörg þekkt vörumerki heyra undir samstæðuna.
Fjölmörg þekkt vörumerki heyra undir samstæðuna.

Jean-Jacqu­es Guiony, áður fjár­mála­stjóri LVMH, og Alexandre Arnault, sonur Bernard Arnault, hafa tekið yfir stjórn sam­kvæmt Ft.

Í kjölfar stjórnar­skipta hafa nýir stjórn­endur til­kynnt mikinn niður­skurð sem felur í sér upp­sagnir allt að 1.200 starfs­manna.

Þá hefur yfir­grips­mikil endur­skoðun hafist á vöru­merkja­safni sam­steypunnar og kostnaðarsömum rekstrar­einingum.

Verðhækkanir og óarðbærar yfirtökur

Verð á vörum Moët Hennes­sy hefur hækkað um meira en þriðjung að meðaltali frá 2019. Þrátt fyrir það lækkaði hagnaðar­hlut­fallið (EBIT) niður í 23% á síðasta ári, langt undir þeim 30% sem stjórn­endur höfðu sett sem viðmið.

Tekjur drógust saman sem bendir til veru­legs sam­dráttar í sölu­magni en smásalar hafa í vaxandi mæli brugðist við þessum hækkunum með mótþróa gegn félaginu.

Yfir­tökur án sýni­legrar ávöxtunar

Í CO­VID-far­aldrinum fór Moët Hennes­sy í yfir­tökur upp á nær tvo milljarða evra til að breikka rekstrar­grunninn sinn og draga úr yfir­burðum kampa­víns og koníaks, sem fram að því höfðu skilað um 80% af tekjum.

Þar má nefna kaup á 50% hlut í kampa­vínsvöru­merki Jay-Z, Armand de Brignac (sem Alexandre Arnault kom að), kaup á Minuty rósa­vínum í Provence árið 2023 og Joseph Phelps-vín­gerðinni í Napa árið 2022.

Flestar þessara fjár­festinga hafa skilað litlum eða engum sýni­legum arði.

Heimildir FT herma að undan­skildum Minuty og örfáum öðrum kaupum hafi við­skiptin „bætt við flækju­stig, þrýst á fram­legð og gengið á lausafé sam­stæðunnar“.

Sam­hliða fjár­festingum lagði Moët Hennes­sy aukna áherslu á beina sölu til neyt­enda, m.a. með opnun Hennes­sy-verslana í Kína, Veu­ve Clicquot-úti­bús í Prin­temps-deildar­versluninni í París og net­verslun með kampa­vín og koníak.

Þessar einingar eru nú sagðar tapa milljónum evra á ári og eru til endur­mats. Sama á við um Tannico, sam­rekinn net­verslunar­bú­skap með Campari, sem ekki hefur staðið undir væntingum.

„Við vitum ekki af hverju þessar ákvarðanir voru teknar, og ætlum ekki að fara yfir það núna,“ sagði Alexandre Arnault á starfs­manna­fundi nýverið, „en við ætlum að greina hvað við þurfum að gera héðan í frá.“

Vöxtur og aftur vöxtur

Þrátt fyrir versnandi af­komu þrýstu æðstu stjórn­endur LVMH á að rekstrar­hagnaður Moët Hennes­sy stæðist áætlanir, þó að út­lit sé fyrir 90 milljón evra frávik.

„Við erum ekki í aðstöðu til að lækka mark­mið okkar,“ skrifaði Philippe Schaus í tölvupósti sem FT hefur undir höndum.

Heimildar­menn segja það óvenju­legt að eining innan LVMH skili lægri framtíðar­spá en árið á undan. „Það snýst allt um vöxt, sama hvað hann kostar.“