Aldarfjórðungur er liðinn frá því að Katrín og fjölskylda hennar keyptu Lýsi hf. en samhliða varð Katrín forstjóri fyrirtækisins. Katrín hefur hlotið ýmsar viðurkenningar og verðlaun fyrir sín störf.

Árið 2007 hlaut Lýsi útflutningsverðlaun forseta Íslands og árið 2016 var Katrín sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf á vettvangi íslensks atvinnulífs.

Lengi vel var Katrín meðal fárra kvenkyns forstjóra landsins en mikið vatn hefur runnið til sjávar og konum fjölgað í stjórnunarstöðum, sem Katrín segir verulega ánægjulegt.

Undanfarin ár hafi fjölgað verulega í hópi kvenna í stjórnunarstöðum og óhætt að segja að þær hafi sýnt sig og sannað. Þá hafi sjálfstraust þeirra eflst og framtíðin sé björt. Spurð um hvort hún hafi einhver ráð til kvenna sem eru að taka sín fyrstu skref í viðskiptalífinu segir Katrín að þær þurfi einfaldlega að ríða á vaðið.

„Búið til eitthvað sjálfar líka og standið fyrir ykkar eigin, verið ekki feimnar við það. Við erum með heimilisbuddu-hagfræðina á hreinu, við kunnum að reka fyrirtæki. Við erum skynsamar og það er ráðdeild í því sem við gerum, við erum að reka heimili og það þarf að ná endum saman. Við kunnum að spara þessa smáu hluti líka sem verða svo stórir. Við eigum líka mjög flottar fyrirmyndir í þjóðfélaginu í dag sem hafa sýnt það og sannað að allir vegir eru okkur konum færir.“

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.