Lýsi hf. hefur vaxið og dafnað á undanförnum árum en þó eru ýmsir þættir sem flækjast fyrir í rekstrinum að sögn Katrínar Pétursdóttur, forstjóra Lýsis. Sumir hafa menn enga stjórn á en aðrir sem eru af mannanna völdum. Meðal síðarnefndu þátta má nefna regluverkið.

„Vandinn er sá að við Íslendingar getum svo lítið sagt þegar búið er að innleiða regluverkið og jafnvel bæta ofan á það, eins og kallað er núna gullhúðun eða blýhúðun eða hvað það nú er, þá eigum við svo erfitt með að hrekja það til baka eða aðlaga það að okkar litla umhverfi,“ segir Katrín.

Á sama tíma sé regluverk innleitt sem kalli á talsverða vinnu af hálfu fyrirtækja án þess að markmiðið með innleiðingu sé skýrt og nefnir Katrín þar sem dæmi jafnlaunavottun.

„Það er bara sagt; gjörðu svo vel, þetta skaltu gera, þú skalt innleiða þetta í þínu fyrirtæki - með tilheyrandi kostnaði. Forstjóri sem sýnir mikla ráðdeild kann ekki sérstaklega vel við það að þurfa að eyða mannafla og peningum til einhverra hluta sem ég sé bara ekki hvaða tilgangi á að þjóna. Þetta hefur ekkert að segja og hjálpar engum. Við erum virkilega móttækileg fyrir öllu regluverki sem verndar náttúruna, sem verndar neytandann, sem leggur á okkur meiri byrði í kunnáttu, þekkingu og okkar fagi – við erum algjörlega tilbúin í það en það er heimska að vera að troða ofan í kokið á fólki einhverju sem það vill ekki og skilar engum árangri.“

Sjálfbærni hefur gegnt lykilhlutverki hjá Lýsi um alla tíð. Ekkert fer til spillis og áhersla lögð á virðingu við náttúruna. Í samkeppni við erlenda aðila hefur það reynst Lýsi gjöfult að búa við hreina orku og lágt orkuverð.

Nú hafi hins vegar Landsvirkjun tekið að rukka fyrir svokölluð upprunavottorð til þess að geta fullyrt að orkan sem fyrirtækið notar sé endurnýjanleg, jafnvel þó að það sé á allra vit orði. Að sögn Katrínar er ríkisfyrirtækið þar með að búa til peninga úr engu, á kostnað fyrirtækjanna. Sömu sögu megi segja af kolefnisgjaldinu - sem sé nýr skattur.

„Ég sé ekkert annað en að við ættum bara að huga að okkar eigin málum, við eigum að gera það vel og sanna tilvist okkar án þessara gjalda og vera fyrirmynd annarra þjóða - gjaldlaust,“ segir Katrín. „Við eigum ekki að hefta okkur innan frá í einhverri ofsatrú og ofsahræðslu um eitthvað sem við höfum nánast ekkert um að segja.“

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.