„Ég var náttúrulega með góða mentora í foreldrum mín um, maður flýtti sér heim ef það var séns að komast úr skólanum til að ná hádeginu heima vegna þess að þar var allt í gangi, talað um viðskipti út í eitt. Maður vildi ekki missa af þessum samræðum,“ segir Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis, um uppvaxtarárin.

Aldarfjórðungur er liðinn frá því að Katrín og fjölskylda hennar keyptu Lýsi hf. en samhliða varð Katrín forstjóri fyrirtækisins. Eplið féll þar með ekki langt frá eikinni en Tryggvi Ólafsson, afi Katrínar, stofnaði fyrirtækið árið 1938 og faðir Katrínar, Pétur Pétursson, varð framkvæmdastjóri upp úr 1950 og gegndi því hlutverki í á þriðja áratug.

Eftir að hafa sagt skilið við Lýsi um stundarsakir stofnuðu foreldrar hennar útflutningsfyrirtækið Fiskafurðir ehf., sem var meðal annars með lifrarbræðslu í Þorlákshöfn, árið 1981. Katrín tók síðar við sem framkvæmdastjóri og var á tímabili í viðskiptum við einn stærsta lýsiskaupanda heims.

„Síðan fór ég í fulla samkeppni með flöskur á markað og annað slíkt undir nafninu Eyjalýsi. Svo gerist það að ég fer að horfa á gæludýrafæði og möguleikana þar, og úr því verður að ég og mamma kaupum hausaþurrkun í Þorlákshöfn,“ segir Katrín.

Svo fór loks að þær mæðgur keyptu öll hlutabréf í Lýsi hf. árið 1999 en fyrirtækið var þá á barmi gjaldþrots. Að sögn Katrínar spilaði rekstur hausaþurrkunarinnar og lifrarbræðslunnar meðal annars stórt hlutverk í viðsnúningi rekstursins.

„Þetta tvennt tókum við og settum inn í Lýsi til þess að styrkja fyrirtækið og efla það. Það tvö- til þrefaldaði veltuna strax frá fyrsta degi að við sameinuðum þetta og keyrðum reksturinn upp. Það gerði okkur miklu auðveldara fyrir, samlegðaráhrifin voru gríðarleg, en það þurfti náttúrulega að taka svo lítið til í Lýsi, því miður, bara eins og gerist, til að koma mínum sjónarmiðum á framfæri og annað slíkt. En það hjálpaði rosalega mikið til að ná þessari veltu og þeirri EBITU sem fylgdi til þess að snúa okkur út úr þessu mjög hratt.“

Draumastaða að vera í að bæta lífsgæði

Umsvif fyrirtækisins jukust til muna eftir að Katrín tók við stjórnartaumunum. Árið 2003 voru þau búin að tryggja sér lóð og unnu hörðum höndum að hönnun nýrrar verksmiðju, sem þau fluttu síðan inn í árið 2005. Salan jókst hratt og árið 2010 var ákveðið að tvöfalda stærð verksmiðjunnar og var nýtt húsnæði tekið í gagnið árið 2012. Frá þeim tíma má segja að lýsi hafi hreinlega flætt út úr dyrum.

„Við höfum verið ótrúlega heppin og fengið mikinn meðbyr og það er bara eins og er í öllum rekstri, það er fólkið. Ég hef verið svo lánsöm, og við, með fólk. Þetta eru allt snillingar og svo frábært fólk, við höfum verið svo lánsöm að það er eiginlega galli vegna þess að núna er framkvæmdastjórnin á sama aldri og ég, við erum öll orðin eldri og rólegri allt í einu. Við sem vorum í þvílíku stuði hérna fyrir 25 árum síðan,“ segir Katrín og hlær.

„Maður hugsar bara hvert fór tíminn vegna þess að þetta er búið að vera svo gaman og við höfum verið svo samstíga. Það tekur langan tíma að komast inn í þennan bransa en það góða við það er að fólk fílar að vinna hérna, það er góður andi hérna. Þó að það sé að sama skapi mjög gott aðhald og ráðdeild þá er kúltúrinn bara svo skemmtilegur, sem sýnir sig að það er lítil starfsmanna velta hér á skrifstofunni og í framkvæmdastjórn.“

Það spili þá eflaust inn í að fyrirtækið framleiði vöru sem hjálpar samfélaginu öllu, sem sé vafalaust göfugur tilgangur.

„Hver vill ekki vera í þessari stöðu að framleiða vöru sem eykur lífsgæði fólks í samfélaginu þínu og öðrum samfélögum? Það er draumastaða að vera í. Fyrir utan það hvað þetta hjálpar geðheilbrigðinu og við þurfum svo sannarlega á því að halda í skammdeginu,“ segir Katrín.

„Við segjum alltaf að það sem við erum að gera er að bæta heilsu, við erum að bæta lífsgæði, lífsgæði fólksins sem býr í þessu samfélagi og bætir samfélagið í leiðinni. Það er engin smá vegferð, hún er algjörlega endalaus en það er bara gaman.“

Nánar er rætt við Katrínu í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kemur út mánudaginn 30. desember. Blaðið verður birt á vefnum fyrir áskrifendur klukkan 19.30, sunnudaginn 29. desember.