Fjöldi lifandi fæddra barna á Íslandi var 4.311 árið 2024, sem er lítils háttar fækkun frá fyrra ári þegar 4.315 börn fæddust, samkvæmt Hagstofu Íslands.
Drengir voru fleiri en stúlkur, alls 2.224 drengir á móti 2.087 stúlkum, sem jafngildir 1.066 drengjum á hverjar 1.000 stúlkur.
Frjósemi kvenna, mæld sem fjöldi lifandi fæddra barna sem hver kona eignast að jöfnu á ævi sinni, var 1,56 árið 2024.
Aldrei hefur frjósemi mælst jafn lág á Íslandi frá því að mælingar hófust árið 1853.
Fyrra metið var sett árið 2023, þegar frjósemi var 1,59. Síðast var frjósemi yfir 2,0 árið 2012, en til að viðhalda mannfjölda þarf frjósemi að jafnaði að vera um 2,1 barn á hverja konu.
Svipuð þróun hefur sést á Norðurlöndum. Frjósemi var um 1,4 í Svíþjóð, Noregi og Danmörku árið 2024, en Finnland mældist með lægstu frjósemi allra Norðurlanda, 1,26 árið 2023. Færeyjar og Grænland hafa einnig séð hratt minnkandi frjósemi, en árið 2023 var frjósemi 1,86 í Færeyjum og 1,78 á Grænlandi, samanborið við 2,33 í Færeyjum árið 2021 og 2,12 á Grænlandi árið 2020.
Konur eignast börn seinna á ævinni
Aldursbundin fæðingartíðni hefur breyst umtalsvert í gegnum árin. Árið 2024 voru einungis 3,5 lifandi fædd börn á hverjar 1.000 konur undir tvítugu. Til samanburðar var fæðingartíðni sama aldurshóps 84 börn á hverjar 1.000 konur á árunum 1961-1965. Fyrir utan síðustu ár þarf að fara aftur til 1870 til að finna jafn lága tíðni.
Frá árinu 1932 til 2018 var fæðingartíðni hæst í aldurshópunum 20-24 ára og 25-29 ára. Síðan 2019 hefur fæðingartíðni hins vegar verið hæst í aldurshópnum 30-34 ára. Árið 2024 voru 102,9 börn fædd á hverjar 1.000 konur í þeim aldurshópi, samanborið við 98,4 í aldurshópnum 25-29 ára. Aldrei fyrr hefur fæðingartíðni aldurshópsins 25-29 ára farið undir 100 börn á hverjar 1.000 konur.
Meðalaldur frumbyrja heldur áfram að hækka. Frá árinu 1960 og fram yfir 1980 var meðalaldur frumbyrja undir 22 árum, en eftir miðjan áttráðin hefur hann aukist jafnt og þétt. Árið 2024 var meðalaldur frumbyrja 29,1 ár, sem er hæsti aldur sem mælst hefur.