Fjöldi lifandi fæddra barna á Ís­landi árið 2023 var 4.315 sem er fækkun frá árinu 2022 þegar 4.382 börn fæddust, sam­kvæmt Hag­stofu Ís­lands.

Alls fæddust 2.257 drengir og 2.058 stúlkur en það jafn­gildir 1.097 drengjum á móti hverjum 1.000 stúlkum.

Helsti mæli­kvarði á frjó­semi er fjöldi lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu.

„Yfir­leitt er miðað við að frjó­semi þurfi að vera um 2,1 barn til að við­halda mann­fjölda til lengri tíma litið. Árið 2023 var frjó­semi ís­lenskra kvenna 1,59 og hefur hún aldrei verið minni frá því að mælingar hófust árið 1853,“ segir á vef Hag­stofunnar.

Árið 2022 var frjó­semi 1,67 en það er næst­minnsta frjó­semi sem mælst hefur hér á landi. Frjó­semi hefur ekki farið upp fyrir 2,0 hér á landi síðan árið 2012 þegar hún var 2,1.

Sam­hliða því er aldurs­bundin fæðingar­tíðni á Ís­landi mjög lág meðal mæðra undir tví­tugu. Fæðingar­tíðni mæðra undir tví­tugu var í fyrra 3,7 börn á hverjar 1.000 konur.

Sam­kvæmt Hag­stofunni er það afar lágt í saman­burði við tíma­bilið 1961-1965 þegar hún fór hæst en þá fæddust 84 börn á hverjar 1.000 konur undir tví­tugu.

„Fyrir utan síðustu þrjú ár þarf að fara aftur til ársins 1870 til að finna ár þar sem fæðingar­tíðni mæðra undir tví­tugu fór undir fjögur börn á hverjar 1.000 konur. Frá árinu 1932 til ársins 2018 var aldurs­bundin fæðingar­tíðni alltaf hæst í aldurs­hópunum 20-24 ára og 25-29 ára en árið 2019 varð sú breyting að fæðingar­tíðnin reyndist hæst innan aldurs­hópsins 30-34 ára.

Það sama átti við um árið 2023 en þá fæddust 108,0 barn á hverjar 1.000 konur á aldurs­bilinu 30-34 ára en 102,1 á aldurs­bilinu 25-29 ára og hefur fæðingar­tíðni aldrei verið svo lág á því aldurs­bili.

„Meðal­aldur mæðra hefur hækkað jafnt og þétt síðustu ára­tugi og eignast konur nú sitt fyrsta barn að jafnaði síðar á ævinni en áður. Frá byrjun sjöunda ára­tugarins og fram yfir 1980 var meðal­aldur frum­byrja undir 22 árum en eftir miðjan níunda ára­tuginn hefur meðal­aldur farið hækkandi og var 28,9 ár í fyrra,“ segir á vef Hagstofunnar.