Íslenska lyfjaþróunarfyrirtæki EpiEndo Pharmaceuticals, sem sérhæfir sig í öndunarfærasjúkdóma, hefur fengið INN („International Non-proprietary Name“ eða „generic name“) nafnið glasmacinal frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni fyrir frumlyf sitt EP395, en unnið er að klínískum rannsóknum á lyfinu.

Glasmacinal er lyf í töfluformi sem virkjar varnarviðbrögð líkamans gegn innöndun á sýklum af ýmsu tagi og hefur jafnframt bólgueyðandi áhrif.

„Nafnið glasmacinal er undir áhrifum af íslenskum uppruna sínum með vísun í jökla (glas-) að viðbættu WHO viðskeytinu ­macinal, sem er samheiti yfir lyf sem hafa bólgueyðandi virkni án þess að vera sýklalyf. Þetta er nýr flokkur lyfja og er glasmacinal fyrsta lyfið sinnar tegundar,“ segir í tilkynningu frá EpiEndo.

Við erum afar stolt af því að hinir sérstöku eiginleikar EP395 hafi verið viðurkenndir af WHO og stofnunin komið á fót nýjum lyfjaflokki sem endurspeglar þessa eiginleika. Þá er ég sérstaklega ánægð með nafnið glasmacinal,“ segir Maria Bech, forstjóri EpiEndo Pharmaceuticals.

„Við höfum nýlega lokið nokkrum klíniskum rannsóknum og erum sífellt að auka skilning okkar á því hvernig glasmacinal virkar í mönnum. Von okkar og markmið er að lyfið verði áhrifaríkt í baráttunni við lungnaþembu.“