Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Abler, sem þróar lausna sem auðvelda skipulag íþrótta- og tómstundastarfs, hefur lokið 520 milljóna króna fjármögnun frá Frumtaki. Fjármagnið verður nýtt við áframhaldandi þróun lausna félagsins og uppbyggingu sölu- og markaðsstarfs á alþjóðlegum mörkuðum, að því er kemur fram í tilkynningu.
Abler hefur áður fengið fjármagn frá hópi englafjárfesta þ.m.t. Aðalsteini Óttarssyni, Sigga Ólafssyni, Þorsteini Friðrikssyni, ásamt atvinnumönnunum og þjálfurunum Birki Bjarnasyni, Alfreð Finnbogasyni, Guðjóni Val Sigurðssyni og Degi Sigurðssyni. Þá hefur félagið fengið styrki frá Tækniþróunarsjóði, Nýsköpunarmiðstöð og heilbrigðisráðuneytinu.
Abler var stofnað árið 2017 af Markúsi Mána M. Maute, framkvæmdastjóra, og Jóhanni Guðmundssyni, tæknistjóra. Hugbúnaðarlausnir félagsins efla grunnstoðir íþrótta- og tómstundastarfs með því að einfalda skipulag, samskipti og umsýslu ásamt því að veita skýrari sýn á lykiltölur í rekstri. Kerfin taka við skráningum, greiðslum og auðvelda samskipti milli íþróttafélaga, þjálfara, foreldra og iðkenda.
Lausnirnar voru upphaflega hannaðar fyrir íþróttafélög en eru nú einnig notaðar af skipuleggjendum ýmis konar íþrótta-, félags- og tómstundastarfs s.s. líkamsræktarstöðvum, tónlistarskólum og öðrum félagasamtökum. Árið 2021 sameinaðist félagið Nóra, sem var skráningar- og innheimtukerfi fyrir íþróttafélög, með það fyrir augum að efla heildstætt framboð lausna. Nóra var í eigu Greiðslumiðlunar Íslands sem varð í kjölfarið einn af stærstu hluthöfum félagsins.
Leiðandi sérfræðingar á sviði íþrótta, heilsu og sálfræði hafa komið að þróun vara og þjónustu Abler og félagið hefur átt í nánu samstarfi við ÍSÍ, UMFÍ og sveitarfélög um allt land. Stór hluti íþróttafélaga á Íslandi er nú þegar á meðal viðskiptavina félagsins og þróunarverkefni eru hafin með klúbbum sem skipuleggja fótbolta- og handboltaiðkun ungmenna í Bretlandi og Þýskalandi. Í framhaldinu stefnir félagið að því að hasla sér völl á Norðurlöndunum og í fleiri Evrópulöndum.
Markús Máni Maute, annar stofnanda Abler:
„Það er margsannað að íþróttir efla líkamlega, félagslega og andlega heilsu. Við hjá Abler höfum undanfarin ár gert okkar besta til að þjónusta þjálfara, iðkendur og foreldra með notendavænum lausnum sem tengja hagsmunaaðila saman með gagnvirkum snertifleti. Við trúum því að sterkari innviðir íþróttafélaga stuðli að betra og skilvirkara starfsumhverfi sem geri öflugt starf enn betra. Það leiðir til aukins áhuga og þátttöku sem á endanum skilar sér í betra og heilbrigðara samfélagi.
Við höfum þegar stigið mikilvæg skref í átt að langtímamarkmiðum okkar en fjármögnunin gerir okkur kleift að hugsa stærra og þróa enn betri og meira virðisaukandi lausnir. Við erum gríðarlega þakklát fyrir tækifærið og traustið sem samstarfsaðilar okkar hafa sýnt okkur og stolt af því að þjónusta íþróttahreyfinguna og hennar mikilvæga starf á hverjum degi. Það mun halda áfram að vera okkar leiðarljós.“
Svana Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Frumtaks:
„Abler þjónar skipuleggjendum íþrótta- og tómstundastarfs á margvíslegan hátt. Við erum sannfærð um að það séu mikil tækifæri á erlendum mörkuðum fyrir lausnir félagsins og Abler sé þannig í stakk búið að efla líkamlega og andlega heilsu í samfélögum um allan heim,“ segir „Abler teymið býr yfir mikilli reynslu og þekkingu á íþróttaiðkun, allt frá ungmennastarfi til atvinnumennsku, auk framúrskarandi tækniþekkingu. Félagið er í kjörstöðu til að nýta spennandi tækifæri á mörkuðum.“