Frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaða, um stéttarfélög og vinnudeilur, þ.á.m. auknar valdheimildir ríkissáttasemjara, mun ekki líta dagsins ljós fyrr en eftir áramót samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.
Stór hluti kjarasamninga losnar þó snemma á næsta ári og því gæti frumvarpið komið of seint. Viðbúið er að eitthvað verði um átök þar sem þrálát verðbólga og hátt vaxtastig spila inn í. Þá er stefnt á að gera langtímasamninga en ekki skammtímasamninga eins og gert var síðasta vetur.
Umræðan um valdheimildir ríkissáttasemjara náðu hápunkti í kringum kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins fyrr á árinu. Aðalsteinn Leifsson, þáverandi ríkissáttasemjari, lagði fram miðlunartillögu í deilunni í lok janúar en ekki var hægt að láta kjósa um tillöguna þar sem Efling neitaði að afhenda kjörskrá og Landsréttur hafnaði kröfu ríkissáttasemjara um aðfarabeiðni.
Í kjölfarið kölluðu aðilar atvinnulífsins, meðal annarra, eftir því að heimildir ríkissáttasemjara yrðu auknar þannig hann gæti knúið fram atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu, meðal annars.
Stjórnarfrumvarp hafði verið afgreitt af flokkunum í ríkisstjórn en í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir:
„Styrkja þarf hlutverk ríkissáttasemjara til að bæta undirbúning og verklag við gerð kjarasamninga, fækka málum sem lenda í ágreiningi og tryggja að kjaraviðræður dragist ekki úr hófi fram, til að mynda með standandi gerðardómi í kjaradeilum sem eykur fyrirsjáanleika og réttaröryggi deiluaðila.“
Í vor staðfesti vinnumarkaðsráðherra að frumvarpið yrði ekki lagt fram á því þingi. Morgunblaðið hafði það eftir ráðherranum í júní síðastliðnum að mikil andstaða verkalýðshreyfingarinnar við frumvarpið hafi verið ástæðan fyrir því að frumvarpið var ekki lagt fram. Ef það væri niðurstaða starfshóps um að styrkja valdaheimildir yrði frumvarpið lagt fram í haust.
Í yfirliti yfir stöðu verkefna í stjórnarsáttmálanum í dag kemur fram að ráðherra hafi skipað starfshóp í júní 2023 sem hafði meðal annars það hlutverk að kanna hvort og þá hvernig rétt sé að styrkja enn frekar hlutverk og heimildir ríkissáttasemjara hér á landi.
Að öðru leyti kemur aðeins fram að verkefnið sé hafið. Áður hafði komið fram að hlutverk og heimildir ríkissáttasemjara á Norðurlöndunum hafi verið skoðaðar en meta þyrfti í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins hvort rétt væri að leggja til breytingar hér á landi.