FTX hefur sótt um greiðslustöðvun í Bandaríkjunum eftir að rafmyntakauphöllin, sem er ein sú stærsta í heimi, gat ekki annað stríðan straum af úttektum. Fyrirtækið var metið á 32 milljarða dala, eða sem nemur yfir 4.600 milljörðum króna, fyrir örfáum mánuðum.
Beiðni um heimild til greiðslustöðvunar var lögð inn til alríkisdómstóls í Delware í dag. Beiðnin nær til félags utan um rekstur FTX í Bandaríkjunum og um 130 tengdra félaga, að því er kemur fram í grein Financial Times.
Á þriðjudaginn var tilkynnt um að Binance, stærsta rafmyntakauphöll heims, hygðist taka yfir FTX og aðstoða félagið í gengum lausafjárvandræði. Degi síðar hætti Binance við viðskiptinn í kjölfar áreiðanleikakönnunar.
FTX hefur undanfarna daga sóst eftir milljörðum dala til að koma félaginu í skjól eftir að viðskiptavinir byrjuðu að taka út eignir sínar af reikningum FTX.
Sam Bankman-Fried, stofnandi FTX, hefur sagt af sér sem forstjóri fyrirtækisins. John J Ray III, sérfræðingur í endurskipulagningu fyrirtækja, hefur tekið við forstjórastöðunni. Ray er þekktur fyrir að koma að stórum gjaldþrotamálum, þar á meðal hjá orkufyrirtækinu Enron.
Ray sagði í tilkynningu að greiðslustöðvunin gefi fyrirtækinu svigrúm til að greina stöðu sína og setja fram áætlun um hvernig hámarka megi endurheimtur hagaðila.