Boðað hefur verið til fundar hjá breiðfylkingu stéttarfélaga innan Alþýðusambandsins og SA hjá ríkissáttasemjara í fyrramálið. Vísir greinir frá þessu en viðræðum var slitið fyrir tæpum tveimur vikum síðan.

Viðræður strönduðu á kröfum breiðfylkingarinnar um forsendur samninganna og hafa samninganefndirnar ekki fundað formlega síðan 9. febrúar.

Á þeim tíma var því haldið fram í tilkynningu að SA hafi hafnað fjögurra ára samningi en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var sú fullyrðing ekki með öllu rétt.

SA hafi reynt að koma til móts við verkalýðshreyfinguna með því að leggja til að unnt væri að segja samningnum lausum á seinni hluta samningstímans ef þróun í efnahagsmálum myndi víkja markvert frá væntingum samningsaðila.