Rekstrartekjur Hampiðjunnar drógust saman um 7,7% milli ára og námu 74,7 milljónum evra, eða sem nemur 11,3 milljörðum króna, á þriðja ársfjórðungi. EBITDA-hagnaður félagsins á fjórðungnum lækkaði um 6,4% frá sama tímabili í fyrra og nam tæplega 1,3 milljörðum króna.

Hagnaður Hampiðjunnar eftir skatta á þriðja ársfjórðungi dróst hins vegar saman um 68,5% frá sama tímabili í fyrra, eða úr 3,5 milljónum evra í 1,1 milljón evra.

Minni hagnað eftir skatta má einkum til aukins fjármagnskostnaðar og þá einkum gengismunar.

Í uppgjörstilkynningu Hampiðjunnar segir að samanburður á fjármagnskostnaði þriðja ársfjórðungs í ár og í fyrra komi sérkennilega út vegna gengismismunar sem skapaðist á því tímabili 2023 og tengist hlutafjárútboðinu sem var í júní í fyrra.

Hélt áfram inn í sumarið til loka þriðja fjórðungs

Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar segir að eftir góða sölu á fyrsta ársfjórðungi hafi komið fram sölutregða á öðrum ársfjórðungi. Sölutregðan hafi haldið áfram inn í sumarið og til loka þriðja ársfjórðungs.

„Salan var reyndar ágæt í Kanada, á Íslandi og á Írlandi miðað við sama fjórðung í fyrra og í Færeyjum náðist að vinna upp það sem tapaðist í 4 vikna verkfallinu þar í sumarbyrjun og gott betur en það,“ segir Hjörtur.

„Hins vegar dróst salan saman á Grænlandi og Skotlandi en mestur samdráttur varð hjá fyrirtækjunum í Noregi. Þar varð salan minni bæði í veiðarfærum og veiðarfæraefni ásamt minni sölu til fiskeldis.“

Hann segir ástæður fyrir sölutregðunni, sem einangrist við N-Atlantshaf, vera mismunandi eftir landsvæðum.

Mesti munurinn er sé í Noregi því mælingar á þorskstofninum í Barentshafi, sem er sameiginlegur veiðistofn Norðmanna og Rússa, sýndu að þörf væri á meiri niðurskurði kvóta og í kjölfar 20% kvótaminnkunar 2024 hafi verið ákveðið að minnka kvótann um 25% á næsta ári.

„Þessi fyrirhugaða kvótaminnkun, í kjölfar mikillar minnkunar á þessu ári, hefur haft töluverð áhrif á kaup á veiðarfærum og veiðarfæraefni undanfarna mánuði. Eftir kvótaniðurskurð næsta árs standa vonir til að meiri veiði verði leyfð árin eftir því þeir árgangar sem eru að vaxa upp virðast vera sterkir.“

Í fiskeldisgeiranum hafi aukin samkeppni á norska markaðnum haft áhrif á sölu til norskra fiskeldisfyrirtækja en mest af sölusamdrætti Mørenot Aquaculture í Noregi megi þó rekja til dótturfyrirtækis þess á Spáni.

„Það hefur orðið af töluverðri umsaminni sölu vegna stjórnmálaástandsins í heiminum m.a. vegna aðkomu rússneskra fjárfesta að fiskeldisverkefnum í Marokkó og við Óman sem hafa sætt viðskiptahindrunum og einnig vegna ástandsins fyrir botni Miðjarðarhafsins sem frestaði stóru verkefni þar.“

Hann segir að tekið hafi tíma að ná sölum í fiskeldisbúnaði í stað þeirra verkefna sem ekki hafa gengið eftir. Nokkrir samningar hafi verið undirskrifaðir undanfarnar vikur og nemur samanlagt söluvirði þeirra um tæpum 6 milljónum evra.

Hjörtur nefnir einnig að á Íslandi hafi mest munað um að ekkert veiddist af loðnu á síðustu vertíð. Á Írlandi komi tvennt til, áhrif Brexit á uppsjávarflotann séu nú komin fram að mestu og einnig var fjöldi minni skipa, sem hafa veitt á svæðinu milli Írlands og Wales, sett í úreldingu.

Þá hafi síðasta rekstrarár grænlenskra útgerða verið erfitt vegna hækkandi kostnaðar og lægri verða á afurðum, meðal annars vegna aukins framboðs frá Rússlandi á lægri verðum.