Kínverska hagkerfið óx um 4,7% á síðustu þremur mánuðum fram að júní samkvæmt opinberum gögnum frá kínverskum stjórnvöldum. Vöxturinn var rétt undir markmiðum ríkisstjórnarinnar sem hafði vonast eftir 5% gróða.

Á fréttasíðu BBC segir að hagkerfi Kína, sem er það næststærsta í heiminum, glími enn við langvarandi fasteignakreppu, háar skuldir sveitarfélaga, lítilli neyslu og hækkandi atvinnuleysi.

Xi Jinping forseti Kína fundaði með 370 háttsettum leiðtogum kínverska þjóðþingsins í dag á fundi æðsta ráðs flokksins, en hann á sér stað á fimm ára fresti. Þar er farið yfir stöðu þjóðarinnar og verða efnahagsmál eflaust tekin fyrir.

Í kínverskum ríkisreknum fjölmiðlum eins og Xinhua og Global Times mátti sjá fjölda ákalla þar sem talað er um fordæmalausar umbætur og nýjan kafla í Kína. Orðalagið vísar til stjórnarstefnu Deng Xiaoping árið 1978 þegar kínverski efnahagurinn byrjaði að opnast fyrir umheiminum.

Hagfræðingar eru þó efins um að fundurinn muni reynast skyndilausn og líta sumir á fundinn sem leikrit fyrir ákvarðanir sem hafa þegar verið teknar innan ríkisstjórnarinnar.

Að sögn kínverska hagfræðingsins Dan Wang í Shanghai mun fasteignakreppan og fall fyrirtækja eins og Evergrande hafa víðtækari áhrif á kínverska efnahaginn. „Það eru meira en 4.000 bankar í Kína og um 90% af þeim eru smærri svæðisbundnir bankar sem eru mjög berskjaldaðir fyrir húsnæðiskreppunni og skuldum sveitarfélaga.“

Þá jókst smásala í Kína aðeins um 2% í júní á meðan vísitala neysluverðs hefur hækkað um 0,2% síðustu þrjá mánuði. Fyrrverandi framkvæmdastjóri Kínadeildar AGS segir það einnig mikið áhyggjuefni fyrir framtíðina ef heimili, fyrirtæki og fjárfestar missa trú á getu stjórnvalda til að takast á við efnahagskreppuna.“