Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Skeljar, gerir stöðu orkumála að umræðuefni í ávarpi sínu í ársskýrslu fjárfestingarfélagsins. Hann segir orku- og aðgerðarleysi stjórnvalda hafa háð samfélaginu í orkumálum. Öllum ætti að vera ljóst að vonlaust sé að stjórnvöld nái markmiðum sínum í orkuskiptum á tilsettum tíma.
„Það er aldrei gott að setja sér markmið sem fyrirséð er að verði ekki náð. Slíkir draumórar snúast á endanum gegn markmiðum, þar sem fólk missir trúna á því að þeim verði nokkurn tímann náð.“
Íslensk stjórnvöld hafa sett sér markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 55% fyrir árið 2030. Þá er markmið um full orkuskipti og kolefnishlutlaust Íslands árið 2040.
Jón Ásgeir segir að stjórnvöld hér á landi séu ekki ein um að hafa sett sér óraunhæf markmið um orkuskipti. Breska ríkisstjórnin hafi til að mynda frestað markmiðum sínum í orkuskiptum um 5 ár og viðurkennt að áður sett markmið í málaflokknum hafi verið óraunhæf.
„Framtaksleysi stjórnmálamanna hefur orðið til þess að við erum á þeim ótrúlega stað að þurfa að láta verksmiðjur á landsbyggðinni ganga fyrir olíu í stað rafmagns. Með því er allur ávinningur af rafbílavæðingunni fyrir bí á einu bretti. Hvernig gat það gerst að eitt orkuríkasta land heims sé orkulaust?“
Fráleitt að vera ekki með öryggisbirgðir af olíu
Jón Ásgeir segir að orkuleysi stjórnvalda sjáist einnig vel þegar horft er til öryggismála. Þjóðin þurfi að koma sér upp tækjakosti til að vernda eignir þegar náttúruvá blasir við.
„Við hjá Skel höfum bent á hversu fráleitt það sé að vera ekki með öryggisbirgðir af olíu í landinu á hverjum tíma. Olía er enn bæði aðal- og varaorkugjafi í landinu. Öll starfsemi í landinu myndi lamast um leið og olía væri á þrotum.“
Hann segir þetta þó ekki bara eiga við um olíu, heldur virðast stjórnvöld að hans mati ekkert hafa hugsað um öryggisbirgðir þegar kemur að öðrum nauðsynjum, hvort sem um er að ræða matvæli, lyf eða annað.
Stjórnvöld verði að marka sér heildstæða stefnu í þessum málum, „sérstaklega þegar ástandið í heiminum er ótryggt“.