Verslanir í Bretlandi segjast hafa séð mikla söluaukningu á áfengislausum drykkjum meðal áhorfenda úrslitaleiks í Evrópumeistaramóti karla í knattspyrnu yfir helgina.

Spánverjar tryggðu sér sinn fjórða Evrópumeistaratitil í gær er liðið sigraði Englendinga 2-1 á Ólympíuleikvanginum í Berlín. Englendingar mættu margir að gömlum sið inn á enskar krár og fylgdust með leiknum með bjór í hendi.

Vaxandi hópur íbúa hefur þó ákveðið að sleppa áfengum drykkjum undanfarin ár og hefur það endurspeglast í aukinni sölu á áfengislausum bjórum, vínum og kokkteilum í dósum (e. mocktails).

Að sögn Guardian eru margir Bretar einnig farnir að blanda saman áfengum og óáfengum drykkjum yfir kvöldið, eða því sem kallast zebra striping, til að forðast þynnkuna daginn eftir.

Vörumerki eins og Heineken, Peroni, Corona og Guinness eru sögð hafa slegið í gegn á meðan á mótinu stóð. Þeir sem aðhyllast sterkari drykki hafa einnig geta fengið sér óáfengt gin frá Gordon‘s og Tanqueray.

Samkvæmt nýrri skýrslu frá rannsóknarstofunni KAM drukku 5,2 milljónir einstaklinga minna áfengi vikulega árið 2023 en þeir gerðu árið 2021. Þá eyddu breskir neytendur meira 300 milljónum punda í áfengislausa drykki í verslunum.

„Þegar við fórum fyrst á markað árið 2018 var heimurinn allt annar staður. Þá var til að mynda vinsælt að taka sér þurran janúar, en núna gerir fólk það allan ársins hring,“ segir Luke Boase, stofnandi óáfenga drykkjarfyrirtækisins Lucky Saint.