Ein af helstu erlendu fjárfestingum Skeljar fjárfestingarfélags erlendis er eignarhlutur í tansaníska námufélaginu Baridi Group, sem Kristinn Már Gunnarsson stofnaði árið 2022.
Skel keypti þriðjungshlut í Baridi á fyrri árshelmingi 2024 fyrir 318 milljónir króna. Félagið tók einnig þátt í tæplega 900 milljóna króna hlutafjáraukningu Baridi á dögunum og á í dag 31,8% hlut sem var bókfærður á 2,2 milljarða króna í síðasta uppgjöri.
Aðkomu Skeljar að verkefninu má einkum rekja til þess að Kristinn og Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Skeljar, hafa þekkst í mörg ár. Jón Ásgeir hafði verið forvitinn um hvað Kristinn væri að gera í Afríku og fór ásamt sameiginlegum vini þeirra til Tansaníu árið 2022.
Líkt og kemur fram í ítarlegu viðtali við Kristin, sem er gjarnan kallaður Diddi, í Viðskiptablaði vikunnar flutti Baridi út kol í byrjun árs 2023 að beiðni þýskra stjórnvalda.
„Þeir komu með mér í kolanámuna þegar ég var enn að spá í hvort ég ætti að flytja út þetta kolaskip. Við stóðum þarna saman að reikna út hversu hagkvæmt þetta væri,“ segir Kristinn og hefur eftirfarandi eftir Jóni Ásgeiri:
„Þetta er bara algjör no brainer Diddi, þú verður að fara í þetta.“
Jón Ásgeir lýsti yfir áhuga á að fjárfesta í verkefninu en vildi hinkra aðeins og fylgjast með hvort áform félagsins um útflutning á kolum myndu ganga upp. Verkefnið hafi hljómað of gott til að vera satt.
Eftir ítarlega skoðun á innviðum félagsins og rekstur í tvö ár ákvað Skel að kaupa þriðjungshlut í Baridi og styðja það til skráningar á hlutabréfamarkað árið 2028.
Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali við Kristin um námuverkefnið í Tansaníu í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.