Fylgi Flokks fólksins og Framsóknar hækkar um tæp 2 prósentur milli kannana hjá Maskínu. Flokkur fólksins mælist nú með 10,8% fylgi og Framsókn með 7,8%.
Fylgi efstu tveggja flokkanna í mælingunni, Samfylkingarinnar og Viðreisnar, lækkar milli kannana. Samfylkingin mælist nú með 20,4% fylgi. Fylgi Viðreisnar mælist 19,2% samanborið við 20,9% í fyrri könnun.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins lækkar lítillega milli kannana og mælist nú 14,5%. Fylgi Miðflokksins heldur áfram að lækka í könnunum Maskínu og mælist nú 11,6% en það mældist síðast jafnhátt í apríl 2024.
Píratar mælast með 5,4%, Sósíalistaflokkurinn með 5,0%, Vinstri græn með 3,7% og Lýðræðisflokkurinn með 1,1%.
Könnunin fór fram dagana 22. nóvember til 28. nóvember.