Fylgi Sjálfstæðisflokksins eykst um rúmlega 2%, upp í 24%, milli mánaða en fylgi Framsóknarflokksins minnkar um sama hlutfall, eða úr 15,6% í 13,4%. Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup fyrir septembermánuð.

Fylgi annarra flokka breytist lítið milli mánaða, eða um á bilinu 0-1,2 prósentustig. Rúmlega 16% þátttakenda í könnuninni myndi kjósa Samfylkinguna, nærri 14% Pírata, tæplega 9% Viðreisn og rúmlega 8% Vinstri Græn. Þá mælast Miðflokkurinn, Flokkur Fólksins og Sósíalistaflokkur Íslands allir með um 5% fylgi.

Rúmlega 12% tók ekki afstöðu eða vildi ekki gefa hana upp og 11% myndu skila auðu eða ekki mæta á kjörstað. Ríkisstjórnin mælist óbreyttur frá fyrri mælingu, en 49% þeirra sem taka afstöðu segjast styðja stjórnina.