Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun sagði John Riccitiello starfi sínu lausu sem forstjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Unity seint í gærkvöldi.
Riccitiello tók við starfinu af Davíð Helgasyni, meðstofnanda Unity, árið 2014.
Hugbúnaðarfyrirtækið hefur ekki gefið neinar skýringar á afsögn Riccitiello en samkvæmt BBC kemur afsögn hans í kjölfar þess að fyrirtækið reyndi að koma á umdeildu gjaldi á viðskiptavini.
Unity ætlaði sér að rukka notendur og framleiðendur tölvuleikja sem byggðir eru kerfum í hvert sinn sem þeir eru settir upp í nýju símtæki. Viðskiptavinir fyrirtækisins voru afar ósáttir og létu tölvuleikjanotendur reiði sína einnig í ljós á netinu.
Stórir tölvuleikjaframleiðendur borga nú þegar leyfisgjald til Unity fyrir að nota hugbúnað fyrirtækisins.
Samkvæmt BBC hætti hugbúnaðarfyrirtækið við áætlanir sínar og bað viðskiptavini sína afsökunar.
Hlutabréfaverð Unity hefur lækkað um 21% síðastliðinn mánuð en tók við sér í framvirkum samningum fyrir lokuðum markaði í nótt. Gengið stóð í tæpum 49 dölum í sumar en mun opna í rúmum 31 dölum í Kauphöllinni í New York á eftir.
Riccitiello var forstjóri og stjórnarformaður fyrirtækisins en samkvæmt BBC mun James Whitehurst taka tímabundið við forstjórastöðunni en hann starfaði áður sem framkvæmdastjóri hjá IBM.
„Forréttindi að fá að leiða Unity“
„Það hefur verið forréttindi að fá að leiða Unity í næstum áratug og þjóna starfsfólki, viðskiptavinum, framleiðendum og samstarfsaðilum sem hafa öll átt stóran þátt í vexti fyrirtækisins,“ segir í yfirlýsingu frá Riccitiello sem jafnframt heitir því að aðstoða arftaka sinn við að taka við nýju stöðunni.
Davíð á enn hluti í fyrirtækinu en félagið var skráð í Kauphöllina í New York árið 2020.
Hlutabréfaverð Unity hækkaði gífurlega í virði við skráningu líkt og mörg önnur tæknifyrirtæki í heimsfaraldrinum.
Eftir skráningu átti Davíð 4% hlut í félaginu. Hann hefur aftur á móti lækkað eignarhlut sinn í félaginu í nokkrum skrefum síðan.
Samkvæmt vefmiðlinum Benzinga hefur Davíð selt hluti í Unity fyrir rúma 32 milljarða íslenskra króna. Hann seldi síðast 12,500 hluti fyrir í byrjun ágúst fyrir 74 milljónir króna.
Davíð á enn 9.095.216 hluti í Unity sem eru 37,5 milljarðs króna virði á núverandi gengi.
Unity Technologies framleiðir verkfæri fyrir tölvuleikjaframleiðendur, smáa sem stóra, og er tæknin sú vinsælasta hjá þeim sem búa til leiki fyrir snjallsíma.