Líkt og Við­skipta­blaðið greindi frá í morgun sagði John Ricciti­ello starfi sínu lausu sem for­stjóri hug­búnaðar­fyrir­tækisins Unity seint í gær­kvöldi.

Ricciti­ello tók við starfinu af Davíð Helga­syni, meðstofnanda Unity, árið 2014.

Hug­búnaðar­fyrir­tækið hefur ekki gefið neinar skýringar á af­sögn Ricciti­ello en sam­kvæmt BBC kemur af­sögn hans í kjöl­far þess að fyrir­tækið reyndi að koma á um­deildu gjaldi á við­skipta­vini.

Unity ætlaði sér að rukka not­endur og fram­leið­endur tölvu­leikja sem byggðir eru kerfum í hvert sinn sem þeir eru settir upp í nýju sím­tæki. Við­skipta­vinir fyrir­tækisins voru afar ó­sáttir og létu tölvu­leikja­not­endur reiði sína einnig í ljós á netinu.

Stórir tölvu­leikja­fram­leið­endur borga nú þegar leyfis­gjald til Unity fyrir að nota hug­búnað fyrir­tækisins.

Sam­kvæmt BBC hætti hug­búnaðar­fyrir­tækið við á­ætlanir sínar og bað við­skipta­vini sína af­sökunar.

Hluta­bréfa­verð Unity hefur lækkað um 21% síðast­liðinn mánuð en tók við sér í fram­virkum samningum fyrir lokuðum markaði í nótt. Gengið stóð í tæpum 49 dölum í sumar en mun opna í rúmum 31 dölum í Kaup­höllinni í New York á eftir.

Ricciti­ello var for­stjóri og stjórnar­for­maður fyrir­tækisins en sam­kvæmt BBC mun James Whitehurst taka tíma­bundið við forstjóra­stöðunni en hann starfaði áður sem fram­kvæmda­stjóri hjá IBM.

„For­réttindi að fá að leiða Unity“

„Það hefur verið for­réttindi að fá að leiða Unity í næstum ára­tug og þjóna starfs­fólki, við­skipta­vinum, fram­leið­endum og sam­starfs­aðilum sem hafa öll átt stóran þátt í vexti fyrir­tækisins,“ segir í yfir­lýsingu frá Ricciti­ello sem jafn­framt heitir því að að­stoða arf­taka sinn við að taka við nýju stöðunni.

Davíð á enn hluti í fyrir­tækinu en fé­lagið var skráð í Kaup­höllina í New York árið 2020.

Hluta­bréfa­verð Unity hækkaði gífur­lega í virði við skráningu líkt og mörg önnur tækni­fyrir­tæki í heims­far­aldrinum.

Eftir skráningu átti Davíð 4% hlut í fé­laginu. Hann hefur aftur á móti lækkað eignar­hlut sinn í fé­laginu í nokkrum skrefum síðan.

Sam­kvæmt vef­miðlinum Benzinga hefur Davíð selt hluti í Unity fyrir rúma 32 milljarða ís­lenskra króna. Hann seldi síðast 12,500 hluti fyrir í byrjun ágúst fyrir 74 milljónir króna.

Davíð á enn 9.095.216 hluti í Unity sem eru 37,5 milljarðs króna virði á nú­verandi gengi.

Unity Technologies fram­leiðir verk­færi fyrir tölvu­leikja­fram­leið­endur, smáa sem stóra, og er tæknin sú vin­sælasta hjá þeim sem búa til leiki fyrir snjall­síma.