Leiðtogar í markaðsmálum frá m.a. Google, Amazon, Pepsi, TikTok, og NBA-liðinu Miami Heat eru væntanleg til landsins á Sahara Festival, ráðstefnu um stafræna markaðssetningu sem er haldin í samstarfi við Iceland Airwaves. Sahara Festival var haldin í fyrsta sinn á síðasta ári í fullum sal Gamla bíós, en Covid-19 setti þá strik í reikninginn.

„Það gerði okkur auðvitað erfiðara fyrir, þurftum að láta alla framvísa neikvæðum hraðprófum. En það tókst frábærlega til, og þetta var mjög lærdómsríkt,“ segir Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar SAHARA sem stendur fyrir ráðstefnunni.

„En nú er ekkert sem heldur aftur af okkur og þetta er á miklu stærri skala en í fyrra. Við verðum í Hörpu, það eru fleiri gestir, stærri fyrirlesarar, eftirpartý á föstudeginum á KEX, og svo erum við í vinalegu samstarfi með Airwaves, þannig miðinn gildir líka á alla hátíðina.“

Sahara Festival verður sett fimmtudaginn 3. nóvember og um tugur fyrirlesara kemur fram yfir daginn, þar af eru níu erlendir.

„Það er ótrúlega gaman að kynna loksins fyrirlesarana. Við erum búin að vera sveitt undanfarna mánuði að púsla þessu saman en okkur tókst held ég að safna saman okkar uppáhalds fagfólki í markaðsmálum saman á einn stað,“ segir Davíð Lúther.

Meðal þeirra sem koma fram á ráðstefnunni er Caroline Ta sem hefur tekið þátt í að gera Pepsi Max að einum mest selda gosdrykk heims, Emma Lundgren fjallar um hvernig tónlist og hljóðvist magna upp áhrif TikToks og Rob Bradburn sem útlistar hvernig gervigreind hefur hjálpað Amazon í að skapa hið fullkomna þjónustuviðmót í netverslun. Miðasalan hófst í dag á heimasíðu Hörpu.