Pósturinn hefur opnað á að fyrirtæki geti nýtt sér póstboxin hringinn í kringum landið til að koma sendingum til viðskiptavina sinna.
„Fyrirtæki hafa kallað eftir meiri sveigjanleika og vilja fleiri afgreiðslustaði sem ekki eru háðir opnunartíma pósthúsa en póstboxin eru alltaf opin og yfirleitt skammt frá. Spurningin hvernig getum við létt viðskiptavinum okkar lífið og sparað þeim dýrmætan tíma brennur alltaf á vörum okkar,“ segir Ósk Heiða Sveinsdóttir, forstöðumaður þjónustu og markaða hjá Póstinum.
Póstboxum hefur fjölgað síðastliðna mánuði og eru þau nú 63 talsins víðsvegar um landið. Í tilkynningu Íslandspósts segir að póstleggja megi allar rekjanlegar sendingar í póstbox bæði innanlands og til útlanda. Með þessu megi stytta afhendingartíma og draga úr umstangi.
„Við hvetjum fyrirtæki til að prófa þessa nýju leið og við erum aldrei langt undan til þess að aðstoða ef þarf. Eftir sem áður er Fyrirtækjaþjónustan í boði fyrir þá sem vilja að við komum á staðinn til að sækja og senda pakka,“ segir Ósk Heiða.
„Við prófuðum ferlið með nokkrum fyrirtækjum áður en við settum þjónustuna í loftið og það er óhætt að segja að það hafi gengið vel. Þau nefna að það sé ánægjulegt að það sé styttra að fara með sendingarnar og því gangi allt hraðar fyrir sig. Þeim finnst notendaviðmótið líka vel heppnað, kom þeim skemmtilega á óvart hvað það er auðvelt að póstleggja í póstbox.“