Fyrirtæki í Bandaríkjunum, sem áður fyrr státuðu sig af því að styðja við hátíðahöld hinsegin fólks, eru í auknum mæli að draga úr fjárhagsstuðningi sínum. Hátíðahöldin munu fara fram víðs vegar um Bandaríkin núna í sumar.
Á vef CNBC segir að margar Pride-hátíðir í Bandaríkjunum standi frammi fyrir verulegum fjárhagslegum erfiðleikum í ár eftir þar sem mörg fyrirtæki hafi sleppt því að gerast styrktaraðilar.
Meðal fyrirtækja sem hafa dregið stuðning sinn til baka eru Ford, Comcast, Diageo, Nissan og Anheuser-Busch en öll þau fyrirtæki hafa til að mynda verið styrktaraðilar San Francisco Pride í mörg ár.
Þróunin hefur orðið til þess að mörg samtök, sem standa fyrir hátíðahöldunum, hafa þurft að breyta dagskrá sinni, leita annarra fjármögnunarleiða og hafa neyðst til að endurskoða stöðu sína og hversu háð þau eru stuðningi fyrirtækja.
Mörg þessara fyrirtækja segja að ákvörðun þeirra um að draga sig í hlé byggist fyrst og fremst á núverandi efnahagsástandi. Leiðtogar LGBTQ+ hópa segjast hins vegar hafa tekið eftir sífellt fjandsamlegra andrúmslofti gagnvart málstað þeirra og eru fyrirtæki því hikandi við að blanda sér í samfélagsádeilur.
„Það að svona mörg fyrirtæki séu að hætta stuðningi sínum bendir til þess að við séum í allt öðru pólitísku umhverfi en við höfum verið í langan tíma,“ segir Suzanne Ford, framkvæmdastjóri San Francisco Pride.
Borgirnar sem lenda í stærsta hallanum eru Seattle og New York en hátíðirnar þar hafa misst 350 þúsund dali í formi styrkja og þarf hátíðin í Minneapolis eins og að bæta upp fyrir 200 þúsund dala tap.