Stjórnvöld í Malasíu hafa samþykkt að halda áfram leit að farþegaþotu MH370 frá flugfélaginu Malaysia Airlines sem hvarf í mars árið 2014. Flugvélin var með 239 manns um borð og var á leið frá Kuala Lumpur til Peking.

Anthony Loke, samgönguráðherra Malasíu, gerði í dag 70 milljóna dala samning við bandaríska sjávarkönnunarfyrirtækið Ocean Infinity um að finna flugvélina.

Samkvæmt samningnum fær Ocean Infinity aðeins greitt ef flugvélin finnst. Svipað samkomulag var gert með fyrirtækinu árið 2018 og endaði án árangurs eftir þriggja mánaða leit.

Alþjóðlegu átaki til að finna brakið lauk árið 2017 eftir tveggja ára leit og hafði það þá kostað hátt í 150 milljónir dala. Nýja leitin mun nú ná yfir 15 þúsund ferkílómetra svæði í suðurhluta Indlandshafs og eru stjórnvöld vongóð um að leitin muni bera árangur.