Zach Kirkhorn, fyrrverandi fjármálastjóri Tesla, leiddi nýlega fjármögnunarlotu sprotafyrirtækisins Jolly sem hefur þróað lausn sem hjálpar fyrirtækjum að bæta framleiðni starfsmanna með umbunarkerfum.

Um leið settist fjármálastjórinn fyrrverandi í stjórn sprotafyrirtækisins en þetta er fyrsta stóra verkefnið sem hann tekur þátt í frá starfslokum sínum hjá rafbílaframleiðandanum árið 2023.

Kirkhorn var leiðandi fjárfestir í 16,5 milljón dala fjármögnunarlotu Jolly í byrjun árs. Sprotafyrirtækið var stofnað árið 2022 af Dean Zimberg, fyrrverandi verknema hjá Tesla.

Kirkhorn hætti sem fjármálastjóri Tesla árið 2023 eftir fjögur ár í því starfi og alls þrettán ár hjá fyrirtækinu þar sem hann hjálpaði til við að umbreyta Tesla í verðmætasta bílaframleiðanda heims. Kirkhorn, sem áður var greiningaraðili hjá McKinsey, lækkaði framleiðslukostnað og lagði áherslu á skilvirkni.