K acquisitions ehf., sem var eigandi Keahótela fram að fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins undir lok síðasta árs, hefur verið lýst gjaldþrota. Þetta kemur fram í Lögbirtingarblaðinu í dag.

Eftir endurskipulagningu samstæðunnar eignaðist Landsbankinn 35% hlut í Keahótelum og sömu eigendur og áttu K acquisitions lögðu félaginu til nýtt hlutafé fyrir 65% hlut.

Sjá einnig: Landsbankinn í hótelrekstur

Hluthafar K acquisitions voru bandaríska fjárfestingafélagið Pt Capital, sem átti 50% hlut, en það er jafnframt eigandi helmingshlutar í Nova, fjárfestingafélagið JL Properties, með 25% hlut en það er í eigu Jonathan B. Rubini, ríkasta manns Alaska, og Erkihvönn ehf., sem er í eigu Fannars Ólafssonar, Kristjáns M Grétarssonar, Þórðar Kolbeinssonar og Andra Gunnarssonar.

K acquisitions var stofnað utan um kaup á Keahótelum árið 2017. Það var rekið með 1,4 milljarða króna tapi árið 2019. Í árslok 2019 voru eignir félagsins metnar á 28,7 milljarða króna, skuldir á 28,1 milljarð króna og eigið fé á 590 milljónir króna. Langsamlega stærsta eign og skuld félagsins kom til vegna leigusamninga á hótelum félagsins. Afnotaréttur var þannig bókfærður á 22 milljarða króna og leiguskuld á 22,6 milljarða króna.

Þá skuldaði félagið tengdum aðilum 1,2 milljarða króna og lánastofnun 1,8 milljarða króna en skuldirnar voru tryggðar með veði í Keahótelum.

„Ekki er búið að leggja mat á hugsanlega niðurfærslu viðskiptavildar á árinu 2020 vegna Kórónuveirunnar en líklegt er að áhrif Kórónuveirunar munu valda nokkurri niðurfærslu,“ sagði í ársreikningi K acquisitions fyrir árið 2019.