Áhersla á ESG-þætti í fjárfestingum hefur aukist verulega í fjármálaheiminum á síðustu árum og stærstu eignastýringafyrirtæki heims, með BlackRock í fararbroddi, hafa komið upp fjölda ESG-sjóða. Fyrrum stjórnandi hjá BlackRock, sem lét af störfum í sumar, hefur nú gefið út bók þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að ESG-líkanið virkar ekki.
Terrence Keeley hætti hjá BlackRock í júlí eftir 12 ára starf sem forstöðumaður raðgjafateymis fyrir m.a. seðlabanka, fjármálaráðuneyti og þjóðarsjóði. Sjálfur sinnti Keely viðskiptavinum á borð við Bill and Melinda Gates Foundation ásamt 18 milljarða dala háskólasjóði University of Notre Dame í Indiana-fylki.
Sumir þessara fjárfesta, sem voru undir þrýstingi frá stjórnmálamönnum og aðgerðasinnum, vildi fjarlægja sig frá fyrirtækjum sem skoruðu lágt á ESG-mælikvörðum (í. UFS; umhverfi, félagslegir þættir og stjórnarhættir).
Keely segir í nýútgefnu bókinni sinni Sustainable: Moving Beyond ESG to Impact Investing að sú aðferð að dæla peningum í ESG-sjóði hafi hvorki reynst góð í tilviki ávöxtunar né sé hún líkleg til að knýja fram raunverulegar breytingar.
Hann færir rök fyrir því að fjárfestar ættu frekar að beina fjárfestingum sínum að „fyrirtækjum með viðvarandi umhverfis og félagsleg vandamál og beita sér fyrir breytingum hjá þeim“. Eða eins og Wall Street Journal kemst að orði: gefa mengunarvöldum peninga og neyða þá til að taka sig á.
Bókin gefur til kynna að innan BlackRock hafi verið deilt um sjálfbærnistefnu eignastýringafyrirtækisins, sem er það stærsta í heimi.
Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um á dögunum glímir BlackRock, ásamt fleirum eignastýringafyrirtækjum, við mótbyr í Bandaríkjunum vegna ESG-áherslna og minnkandi fjárfestingu í verkefnum tengdum jarðefnaeldsneyti. Löggjafar í nokkrum Repúblikanafylkjum hafa sett lög sem miða að því að takmarka starfsemi stórra fjármálafyrirtækja sem viðhalda ESG-stefnum.
Ósammála útilokunarstefnunni
Árið 2020 lýsti BlackRock því yfir að sjóðir í virkri stýringu myndu selja hluti í fyrirtækjum sem fengu meira en fjórðung af tekjum sínum frá kolum til hitunar (e. thermal coal). Keeley var ósammála þessari ákvörðun.
„Það er enginn vafi um að kol er efst á lista yfir þá raforkugjafa sem eru mest umhverfisspillandi,“ skrifar hann í bókinni. „Kol eru hins vegar enn stærsti raforkugjafinn víða í Asíu.“
Í þessu ljósi má benda á að Lífeyrissjóður verzlunarmanna, LIVE, innleiddi útilokunarstefnu í öllum eignasöfnum sínum fyrir rúmu ári síðan. Útilokun LIVE tekur m.a. til fyrirtækja sem rekja meira en 5% tekna sinna frá kolum til hitunar, námuvinnslu tengdri olíusandi (e. oil sands) og/eða olíuleirsteini (e. oil shale).
Keeley á þó enn í góðu sambandi við Larry Fink, forstjóra BlackRock, sem skrifaði formála í bókinni. „Þó ég sé ekki sammála öllum skoðunum eða ályktunum í bókinni hans Terry þá tel ég framlag hans, sem og margra annarra, í umræðu um þetta mikilvæga málefni vera kærkomið“.
Fink hélt auk þess tíu mínútna ræðu í útgáfuhófinu og viðurkenndi að bókin hafi hrætt ákveðið fólk innan BlackRock en sagði þó mikilvægt að eiga samtal um ávinning af ESG.
Í umfjöllun WSJ er bent á að Keeley sé ekki fyrsti stjórnandinn sem yfirgefur BlackRock vegna ESG-stefnu fyrirtækisins. Tariq Fancy, fyrrum fjárfestingarstjóri í sjálfbærnifjárfestingum hætti hjá á BlackRock árið 2019 þar sem hann taldi að ESG-átak eignastýringariðnaðarins væri að leiða heiminn á hættulegar slóðir. Fancy sagði í færslu á Medium í fyrra að stjórnvöld, ekki fjárfestar, eigi að leiða loftslagsbaráttuna.