Lífeyrissjóður í Plymouth-sýslu Massachusetts-ríkis hefur óvænt skilað mun betri ávöxtun en nær allir lífeyrissjóðir Bandaríkjanna síðastliðin þrjú ár.
Stærð sjóðsins er um 1,4 milljarðar dala sem nemur um 192 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins. Samkvæmt The Wall Street Journal má rekja velgengni sjóðsins til fjárfestingastefnu Peter Manning, fjárfestingasjóra sjóðsins og fyrrum kennara.
Sjóðurinn, sem ávaxtar m.a. lífeyri slökkviliðsmanna og strætóbílstjóra í Plymouth, skilaði raunávöxtun upp á 5,7% að meðaltali síðastliðin þrjú ár. Mun það vera betri ávöxtun en 92% allra lífeyrissjóða í Bandaríkjunum en meðaltalsávöxtun lífeyrissjóða á tímabilinu var 3,7%.
Til samanburðar var raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða jákvæð um hálft prósent að meðaltali á árinu 2023.
Samkvæmt WSJ ákvað Manning fyrir þremur árum að veðja á miklar vaxtahækkanir vestanhafs og að vextir yrðu háir til lengri tíma.
Sjóðurinn ákvað að draga úr hlutabréfaeign sinni og fjárfesti ágóðann af hlutabréfasölunni í óskráðum félögum, innviðum og verðtryggðum skuldabréfum.
Mannig segir að fjárfestingastefna sjóðsins miði að því að forðast tap fremur en að skila miklum hagnaði.
Manning segir í samtali við WSJ að vonir um að vaxtalækkanir séu handan við hornið vera tálsýn.
Þrátt fyrir að hlutabréfavísitölur vestanhafs séu í sögulegum hæðum og hlutabréfamarkaðurinn hafi gert það gott á Manning von á því að hlutabréf muni taka væna dýfu á næstu mánuðum.
Daniel Dynan, framkvæmdastjóri Meketa Inverstment Group og ráðgjafi lífeyrissjóðsins, segir fjölmarga viðskiptavini sína hafa fylgt stefnu litla lífeyrissjóðsins en það sem skilur Plymouth-sjóðinn frá hinum er hversu stór breyting var gerð á eignasafninu.
Um 10.500 starfsmenn í Plymouth-sýslu greiða í sjóðinn en fyrir rúmum áratug síðan átti sjóðurinn ekki fyrir lífeyrisgreiðslum til sjóðsfélaga.
Sjóðurinn var á þeim tíma rekinn af utanaðkomandi ráðgjöfum og var fjárfestingastefna hans þessi klassíska 60% hlutabréf og 40% skuldabréf.
„Við vorum að gera það sama og allir aðrir, þessi 60-40 hugmyndafræði, og síðan bara vona það besta,“ segir Tom O’Brien, gjaldkeri og stjórnarmaður við WSJ.
Hið svokallaða Taper tantrum hafði áhrif
Sjóðurinn ákvað því að breyta um stefnu og réð Manning sem fjárfestingastjóra en hann var grunnskólakennari í Boston á níunda áratugnum áður en hann byrjaði að fjárfesta sjálfur, mestmegnis á gjaldeyrismarkaði.
Hann fékk síðar starf sem verðbréfamiðlari hjá fjárfestingafyrirtæki frænda síns í Boston áður en hann starfaði um stund sem fjármálaráðgjafi hjá Merrill Lynch.
Í samtali við WSJ, segir Manning að hann hafi tekið á sig töluverða launalækkun er hann tók við sem fjárfestingastjóri en það sem heillaði hann við starfið var að fá reka eigin fjárfestingastefnu
Hann segir ákvörðun sína um að veðja á vaxtahækkanir og áhrif þeirra á hlutabréfamarkaðinn vera byggða á sögulegri reynslu.
Hann minnist þess þegar Ben Bernanke, þáverandi seðlabankastjóra Bandaríkjanna, sagði opinberlega að bankinn ætlaði að draga úr magnbundinni íhlutun sinni árið 2013. Ummælin komu markaðinum í uppnám en atvikið er gjarnan þekkt sem Taper tantrum vestanhafs.
„Við töpuðum 20 milljónum dala og það tók okkur 36 mánuði af vaxtagreiðslum til að ná því aftur,“ segir Manningþ
Manning ákvað að því að hrista upp í 60-40 módelinu en nokkrum árum síðar var sjóðurinn búinn að fjárfesta í óskráðum félögum og þá var innviðafjárfestingar um 15% af heildareignum sjóðsins árið 2020.