Líf­eyris­sjóður í Plymouth-sýslu Massachusetts-ríkis hefur ó­vænt skilað mun betri á­vöxtun en nær allir líf­eyris­sjóðir Banda­ríkjanna síðast­liðin þrjú ár.

Stærð sjóðsins er um 1,4 milljarðar dala sem nemur um 192 milljörðum ís­lenskra króna á gengi dagsins. Sam­kvæmt The Wall Street Journal má rekja vel­gengni sjóðsins til fjár­festinga­stefnu Peter Manning, fjár­festinga­sjóra sjóðsins og fyrrum kennara.

Sjóðurinn, sem á­vaxtar m.a. líf­eyri slökkvi­liðs­manna og strætó­bíl­stjóra í Plymouth, skilaði raun­á­vöxtun upp á 5,7% að meðal­tali síðast­liðin þrjú ár. Mun það vera betri á­vöxtun en 92% allra líf­eyris­sjóða í Banda­ríkjunum en meðal­tals­á­vöxtun líf­eyris­sjóða á tíma­bilinu var 3,7%.

Til saman­burðar var raun­á­vöxtun ís­lenskra líf­eyris­sjóða já­kvæð um hálft prósent að meðal­tali á árinu 2023.

Sam­kvæmt WSJ á­kvað Manning fyrir þremur árum að veðja á miklar vaxta­hækkanir vestan­hafs og að vextir yrðu háir til lengri tíma.

Sjóðurinn á­kvað að draga úr hluta­bréfa­eign sinni og fjár­festi á­góðann af hluta­bréfa­sölunni í ó­skráðum fé­lögum, inn­viðum og verð­tryggðum skulda­bréfum.

Mannig segir að fjár­festinga­stefna sjóðsins miði að því að forðast tap fremur en að skila miklum hagnaði.

Manning segir í sam­tali við WSJ að vonir um að vaxta­lækkanir séu handan við hornið vera tál­sýn.

Þrátt fyrir að hluta­bréfa­vísi­tölur vestan­hafs séu í sögu­legum hæðum og hluta­bréfa­markaðurinn hafi gert það gott á Manning von á því að hluta­bréf muni taka væna dýfu á næstu mánuðum.

Daniel Dynan, fram­kvæmda­stjóri Meketa Inver­st­ment Group og ráð­gjafi líf­eyris­sjóðsins, segir fjöl­marga við­skipta­vini sína hafa fylgt stefnu litla líf­eyris­sjóðsins en það sem skilur Plymouth-sjóðinn frá hinum er hversu stór breyting var gerð á eigna­safninu.

Um 10.500 starfs­menn í Plymouth-sýslu greiða í sjóðinn en fyrir rúmum ára­tug síðan átti sjóðurinn ekki fyrir líf­eyris­greiðslum til sjóðs­fé­laga.

Sjóðurinn var á þeim tíma rekinn af utan­að­komandi ráð­gjöfum og var fjár­festinga­stefna hans þessi klassíska 60% hluta­bréf og 40% skulda­bréf.

„Við vorum að gera það sama og allir aðrir, þessi 60-40 hug­mynda­fræði, og síðan bara vona það besta,“ segir Tom O’Brien, gjald­keri og stjórnar­maður við WSJ.

Hið svokallaða Taper tantrum hafði áhrif

Sjóðurinn á­kvað því að breyta um stefnu og réð Manning sem fjár­festinga­stjóra en hann var grunn­skóla­kennari í Boston á níunda ára­tugnum áður en hann byrjaði að fjár­festa sjálfur, mest­megnis á gjald­eyris­markaði.

Hann fékk síðar starf sem verð­bréfa­miðlari hjá fjár­festinga­fyrir­tæki frænda síns í Boston áður en hann starfaði um stund sem fjár­mála­ráð­gjafi hjá Merrill Lynch.

Í sam­tali við WSJ, segir Manning að hann hafi tekið á sig tölu­verða launa­lækkun er hann tók við sem fjárfestingastjóri en það sem heillaði hann við starfið var að fá reka eigin fjárfestingastefnu

Hann segir á­kvörðun sína um að veðja á vaxta­hækkanir og á­hrif þeirra á hluta­bréfa­markaðinn vera byggða á sögu­legri reynslu.

Hann minnist þess þegar Ben Bernan­ke, þá­verandi seðla­banka­stjóra Bandaríkjanna, sagði opinberlega að bankinn ætlaði að draga úr magn­bundinni í­hlutun sinni árið 2013. Ummælin komu markaðinum í upp­nám en at­vikið er gjarnan þekkt sem Taper tantrum vestan­hafs.

„Við töpuðum 20 milljónum dala og það tók okkur 36 mánuði af vaxta­greiðslum til að ná því aftur,“ segir Manningþ

Manning á­kvað að því að hrista upp í 60-40 módelinu en nokkrum árum síðar var sjóðurinn búinn að fjárfesta í óskráðum félögum og þá var inn­viða­fjár­festingar um 15% af heildareignum sjóðsins árið 2020.