Japanski stálrisinn Nippon Steel hefur ráðið Mike Pompeo, fyrrum utanríkisráðherra í ríkisstjórn Donalds Trumps, sem málafylgjumann til að þrýsta á yfirvöld vestanhafs að samþykkja yfirtökutilboð félagsins í U.S. Steel.
J.P. Morgan og Andrew Carnegie stofnuðu US steel fyrir 122 árum og var það eitt sinn verðmætasta fyrirtæki heims.
Í desember í fyrra lagði japanska fyrirtækið fram 14,9 milljarða dala tilboð, sem samsvarar meira en 2000 milljörðum íslenskra króna, í allt hlutafé U.S. Steel.
Nippon er að greiða um 55% meira fyrir hvern hlut en dagslokagengi U.S. Steel 11. águst í fyrra þegar söluferlið hófst.
Í apríl á þessu ári samþykktu 98% hluthafa félagsins yfirtökutilboðið en salan hefur orðið að pólitísku hitamáli og hlotið gagnrýni frá bæði demókrötum og repúblikönum.
Stéttarfélag starfsmanna í stáliðnaðinum hefur einnig harðlega gagnrýnt kaupin en dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna er með söluna til skoðunar vegna meintra brota á samkeppnislögum.
Af þeim sökum hafa Japanarnir ákveðið að leita til Pompeo, sem var meðal ræðumanna á landsfundi Repúblikana um helgina er flokksmenn tilnefndu Donald Trump sem forsetaefni flokksins.
„Sem fyrrverandi utanríkisráðherra, forstjóri leyniþjónustu Bandaríkjanna og þingmaður hefur Mike Pompeo öðlast virðingu meðal beggja flokka Bandaríkjanna. Þekking hans á alþjóðastjórnmálum og öryggisógnum Bandaríkjanna á sér enga hliðstæðu,” segir í tilkynningu frá Nippon Steel í dag.
„Við hlökkum til að vinna með honum til að halda áfram að sýna fram á að yfirtakan á U.S. Steel styrkir efnahag og þjóðaröryggi Bandaríkjanna,” segir þar enn fremur.