Dómsmálaráðuneytið auglýsti um miðjan nóvember tvö embætti héraðsdómara laus til umsóknar.
Annars vegar er um að ræða embætti dómara með fyrsta starfsvettvang við Héraðsdóm Reykjaness sem skipað verður í frá og með 13. mars 2025.
Hins vegar er um að ræða setningu dómara með fyrsta starfsvettvang við Héraðsdóm Reykjavíkur.
Athygli vekur að tveir þingmenn, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata, og Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, eru meðal umsækjenda.
Umsóknarfrestur rann út þann 2. desember síðastliðinn og sóttu fjórir um stöðuna:
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir lögmaður (bæði embættin), Brynjar Níelsson lögmaður (eingöngu um setningu), Jónas Þór Guðmundsson lögmaður (eingöngu um skipun), Sindri M. Stephensen dósent og settur héraðsdómari (bæði embættin).