Fyrsta Airbus flugvélin í sögu Icelandair lenti á Keflavíkurflugvelli rétt í þessu. Flugvélin er af gerðinni A321LR og á félagið von á þremur sömu tegundar til viðbótar fyrir sumarið 2025.

Flugvélin er með skráningarnúmerið TF-IAA og ber nafnið Esja.

Airbus flugvélarnar munu taka við af Boeing 757 vélunum sem hafa verið burðarásinn í flota Icelandair um áratugaskeið. Í vélunum eru 187 sæti, 22 á Saga Premium og 165 á almennu farrými.

„Dagurinn í dag markar mikil tímamót í sögu Icelandair. Með tilkomu Airbus flugvéla í flotann okkar munu skapast mikil tækifæri á næstu árum, ekki bara fyrir Icelandair heldur einnig fyrir Ísland sem ferðamannaland og tengimiðstöð í flugi milli Evrópu, Norður-Ameríku og jafnvel enn lengra,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

Vélarnar eru búnar Pratt & Whitney GTF™ hreyflum og er flugdrægi vélanna 4.000 sjómílur eða 7.400 kílómetrar. Þær munu því geta sinnt öllum áfangstöðum sem Boeing 757 vélar Icelandair hafa sinnt hingað til.

Í tilkynningu segir að í framtíðinni mun félagið taka við enn langdrægari flugvélum, A321XLR, í takt við samning frá júlí 2023 um kaup á allt að 25 flugvélum.

„Við erum stolt af því að sjá Airbus flugvél í litum Icelandair. A321LR er 30% sparneytnari og stuðlar þar af leiðandi að minni kolefnislosun en fyrri kynslóð sambærilegra flugvéla, auk þess sem hún er umtalsvert hljóðlátari. Þessi tímamót eru því í takt við okkar áherslur á gæði og nýsköpun í flugi,“ segir Benoît de Saint-Exupéry, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Airbus.