Breska flugfélagið easyJet hóf beint áætlunarflug milli Akureyrarflugvallar og Gatwick-flugvallar í London í dag. Fyrsta vél félagsins lenti á vellinum kl. 10:40 í dag við athöfn þar sem fulltrúar úr ferðaþjónustu, sveitarfélögum og ríki komu saman og fögnuðu áfanganum.

Samkvæmt áætlun félagsins verður flogið tvisvar í viku milli Akureyrar og Gatwick-flugvallar á þriðjudögum og laugardögum út mars á næsta ári.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla, segir að það hafi verið stór stund að taka á móti fyrstu easyJet flugvélinni þegar hún lenti á Akureyrarflugvelli.

„Þessi góða viðbót í umferðina um Akureyrarflugvöll sýnir enn frekar hversu mikilvægt það var að ráðast í stækkun flugstöðvarinnar og allar þær framkvæmdir aðrar sem við höfum hafið á vellinum. Áætlað er að viðbyggingin verði tilbúin í lok þessa árs og mun hjálpa okkur við að taka enn betur á móti þeim farþegum sem koma til okkar með easyJet. Með breytingum á núverandi flugstöð til viðbótar verðum við svo komin með tvo aðskilda sali fyrir innanlands- og millilandaflug,“ segir Sigrún Björk.

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir flug easyJet beint til Akureyrarflugvallar grunnforsendu þess að hægt verði að jafna árstíðarsveifluna sem enn er mikil á Norðurlandi. Þannig verði komnar forsendur fyrir uppbyggingu heilsársferðaþjónustu og fjárfestingu á svæðinu.

„Farþegar easyJet munu koma bæði í pakkaferðum ferðaskrifstofa en einnig að stórum hluta á eigin vegum og því skapast mikil tækifæri fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu til að byggja upp nýjar vörur og fá ferðamenn til að dreifast vel um svæðið. Að ná easyJet hingað norður hefur verið langhlaup sem unnið hefur verið í góðu samstarfi ferðaþjónustunnar, sveitarfélaga og stjórnvalda. Þessi dagur er gríðarlega ánægjulegur og sýnir hverju samtakamátturinn getur skilað,“ segir Arnheiður.

„Við erum hæstánægð með að hefja flug á þessari nýju leið milli London og Akureyrar, og að vera eina breska flugfélagið sem flýgur til Norðurlands. Þessi einstaka leið skapar fleiri valmöguleika og fjölbreytni fyrir okkar viðskiptavini í vetur frá Bretlandi,“ er haft eftir Ali Gayward, svæðisstjóra easyJet í Bretlandi.