Englafjárfestasamtökin IceBAN (Iceland Business Angel Network) munu halda fyrstu formlegu englafjárfestakynninguna á Íslandi á morgun, miðvikudaginn 28. ágúst.

Samtökin voru stofnuð í maí með aðstoð stofnsamstarfsaðila eins og Nýsköpunarsjóðs, Nordic Ignite, Aranja, og Miðstöð Stafrænnar Nýsköpunar (EDIH Iceland). Nú þegar hafa 25 englar skráð sig í félagasamtökin.

Englafjárfestasamtökin IceBAN (Iceland Business Angel Network) munu halda fyrstu formlegu englafjárfestakynninguna á Íslandi á morgun, miðvikudaginn 28. ágúst.

Samtökin voru stofnuð í maí með aðstoð stofnsamstarfsaðila eins og Nýsköpunarsjóðs, Nordic Ignite, Aranja, og Miðstöð Stafrænnar Nýsköpunar (EDIH Iceland). Nú þegar hafa 25 englar skráð sig í félagasamtökin.

Hátt í 26 fyrirtæki hafa sótt um að kynna fyrir englafjárfestum og sex fyrirtæki hafa verið kosin til að stíga á stokk og kynna sig fyrir félagsmeðlimum IceBAN. Í október mun svo fara fram fagviðburður í englafjárfestingum þar sem viðskiptaengill ársins hjá EBAN (European Business Angel Network) er meðal fyrirlesara.

IceBAN segir að tilgangur félagsins sé að skapa öflugt og faglegt tengslanet milli englafjárfesta til að greiða fyrir og auðvelda englafjárfestingar í óskráðum fyrirtækjum.

Jón I. Bergsteinsson, stjórnarformaður IceBAN, segir í samtali við Viðskiptablaðið að englafjárfestasamtök séu mjög algeng erlendis en á Íslandi hafi verið mikil vöntun fyrir slíkri starfsemi.

„Mikið af því tengist hruninu og hefur fjármögnun frá englafjárfestum ekki náð að komast á sama pall á Íslandi og sést annars staðar. Íslenskir vísisjóðir hafa staðið sig mjög vel í fjármögnun fyrirtækja síðustu ár, en slíkar fjárfestingar koma yfirleitt seinna inn í fjármögnunarferlið og hafa í raun bara verið á Íslandi undanfarinn áratug eða svo.“

Hugtakið englafjárfestir eða viðskiptaengill (e. business angel) er tengt við einstaklinga sem tengjast yfirleitt ekki stofnendum fyrirtækja beint en eru þó tilbúnir til að leggja fram fjárhæðir til að hjálpa fyrirtækjum að taka fyrstu skrefin í þróun eða vexti.

Jón bætir við að þjóðir eins og Bandaríkin, Danmörk og önnur Evrópulönd hafi sett upp sterkt tengslanet milli fjárfesta og nýsköpunarfyrirtækja. Fjárfestar í Bandaríkjunum hafi undanfarin 30 ár skapað gott umhverfi í öllum helstu stórborgum með svipuðum tengslanetum. Í Danmörku geta upphæðir til englafjárfestinga oft numið á bilinu 2 til 50 milljónum íslenskra króna.

Töluverð áhætta felst í englafjárfestingum en Jón segir þetta stig oft vanmetið. „Þetta hjálpar ekki aðeins fyrirtækjum þegar kemur að fjármagni, heldur býr þetta líka til umhverfi þar sem frumkvöðlar geta leitað ráða, leiðbeininga og þekkingar frá fjárfestum og þeirra tengslaneti. Allt þetta eykur líkurnar á því að fyrirtækin komist almennilega á legg.“