Milljarðamæringurinn Jared Isaacman tók á loft klukkan hálf tíu í morgun að íslenskum tíma með SpaceX Falcon 9-eldflauginni frá Kennedy-miðstöð Nasa á Canaveral-höfða. Hann og áhöfn hans munu taka þátt í fyrstu geimgöngu sem fjármögnuð er af einkaaðila.

Verkefnið kallast Polaris Dawn og er fyrsta ferðin af þremur sem er fjármögnuð af bandaríska greiðslufyrirtækinu Shift4. Um borð í geimfarinu er Scott „Kidd“ Poteet, vinur Jared og fyrrum orrustuflugmaður, ásamt tveimur verkfræðingum frá SpaceX, Önnu Menon og Söru Gillis.

Milljarðamæringurinn Jared Isaacman tók á loft klukkan hálf tíu í morgun að íslenskum tíma með SpaceX Falcon 9-eldflauginni frá Kennedy-miðstöð Nasa á Canaveral-höfða. Hann og áhöfn hans munu taka þátt í fyrstu geimgöngu sem fjármögnuð er af einkaaðila.

Verkefnið kallast Polaris Dawn og er fyrsta ferðin af þremur sem er fjármögnuð af bandaríska greiðslufyrirtækinu Shift4. Um borð í geimfarinu er Scott „Kidd“ Poteet, vinur Jared og fyrrum orrustuflugmaður, ásamt tveimur verkfræðingum frá SpaceX, Önnu Menon og Söru Gillis.

Geimfarið ber heitið Resilience og mun ferðast um sporbraut jarðar í allt 1.400 km hæð. Enginn geimfari hefur farið í geimgöngu í slíkri hæð frá því Apollo-verkefni Nasa lauk á áttunda áratugnum.

Sævar Helgi Bragason, einnig þekktur sem Stjörnu-Sævar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að um sé að ræða sögulega geimferð. Geimfararnir munu ekki aðeins skrifa sig í sögubækurnar heldur verða nýir búningar SpaceX einnig prufaðir í geimnum.

„Þetta er sú geimganga sem er lengst frá jörðinni síðan Ron Evans í Apollo 17 fór í geimgöngu milli jarðar og tunglsins árið 1972. Hann var reyndar þá í um 300 þúsund kílómetra fjarlægð frá jörðinni, þannig að hann var aðeins lengra í burtu. Þetta er þó fyrsta borgaralega geimgangan sem er fjármögnuð af einkaframtaki og það er sögulegt í geimferðasögunni okkar.“

Geimfararnir munu ferðast um svæði geimsins sem kallast Van Allen-beltið, sem býr yfir mikilli geislun, en áhöfnin verður þó vernduð af bæði geimfarinu og nýuppfærðum geimbúningum þeirra.

Ef allt gengur að óskum munu bæði Isaacman og Sarah Gillis fara í sína sögulegu geimgöngu í um 700 km hæð og er búist við að hún muni taka um tvær klukkustundir.

Aðspurður um framtíð slíkra geimferða býst Sævar við aukinni aðkomu einkafyrirtækja ásamt mögulegu geimkapphlaupi milli Bandaríkjanna, Kína og Indlands.

„Ég er viss um að Blue Origin muni fara svipaða leið í náinni framtíð þar sem þeir eru býsna framarlega og hafa farið í mannaðar geimferðir um jörðina. Það er spurning með Virgin Galactic, þeir hafa aðallega verið að fara upp í loftið frekar en á sporbraut. Þetta er mögulega bara eðlileg þróun á því sem hefur á undan gengið, en sögulegt engu að síður.“