Nýlega var stofnuð íslensk vefsíða sem sérhæfir sig í framleiðslu ferilskráa en lausnin er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Ferilskráagerðin ber heitið Easy CV og var stofnuð af Rósu Amelíu Árnadóttur.

Rósa segir í samtali við Viðskiptablaðið að hún hafi verið mjög hissa á því að slík þjónusta hafi ekki áður fyrr litið dagsins ljós og að það séu aðeins örfáir einstaklingar sem taki það að sér að búa til ferilskrá fyrir annað fólk.

„Ég var búin að vera að fikta í því að búa til ferilskrá sjálf á erlendum síðum en það var bara ekki að gera sig. Það eru líka margir sem eru ekki með ferilskrá og kunna ekki að búa hana til en flott ferilskrá skiptir miklu máli þegar kemur að því að fá vinnu.“

„Svo mun ég fljótlega bjóða einnig upp á valkost fyrir fólk til að búa til kynningarbréf“

Hún segir að það sé jafnframt erfitt fyrir marga að fá atvinnuviðtal í dag yfir höfuð og að fagleg ferilskrá auki þá um leið samkeppnishæfni atvinnuleitenda.

Frá Texas til Strætó

Hugmyndin að Easy CV kviknaði eftir að Rósa flutti aftur til Íslands og byrjaði að vinna hjá Strætó. Hún hafði verið í námi í Austin í Texas og opnaði meðal annars eigin matarvagn. Covid hafi hins vegar sett strik í reikninginn og þurfti hún á endanum að snúa aftur til Íslands.

„Ég var þá að vinna með Klappið og alls konar fólki í tæknigeiranum. Ég sá svo líka að það voru margir sem komu til Strætó til að sækja um vinnu og ég myndi giska á að um 90% af því fólki væri ekki með ferilskrá. Fólkið var mjög duglegt að sækja um vinnu en ég hugsaði að það hlyti að hrjá það rosalega að vera ekki með ferilskrá.“

Rósa segir að lausn hennar sé í raun tvískipt en Easy CV bjóði bæði upp á sjálfvirka ferilskráargerð sem sé sérhönnuð fyrir íslenskar aðstæður. Fyrir þá sem eru með lengri feril að baki býður Rósa einnig upp á sérpantaðar ferilskrár sem hún býr til sjálf.

Hún segir að vefsíðan spari fólki einnig mikinn tíma og fyrirhöfn og að fagleg ferilskrá gefi atvinnuleitendum einnig betra svigrúm þegar kemur að því að semja um laun.

„Svo mun ég fljótlega bjóða einnig upp á valkost fyrir fólk til að búa til kynningarbréf með aðstoð gervigreindar ásamt ráðgjafarþjónustu til að hjálpa fólki að undirbúa sig fyrir atvinnuviðtöl. Það verður allt tilbúið þarna fyrir atvinnuleitendur til að fylla inn í og það mun ekki þurfa að finna upp á neinu.“